Gríðarlega vel skipulagt flugrán?

Hvar er hún? Farþegar á flugvellinum í Kuala Lumpur skoða …
Hvar er hún? Farþegar á flugvellinum í Kuala Lumpur skoða stórt stafrænt kort af heiminum. AFP

Getur risastór farþega þota komist hjá því að sjást á ratsjám, flogið yfir landamæri nokkurra landa og lent einhvers staðar án þess að nokkur viti af því?

Þessum áleitnu spurningum er reynt að svara í fréttaskýringu á vef CNN. Enn hefur ekkert spurst til malasísku farþegavélarinnar sem hvarf fyrir rúmri viku með 239 manns um borð.

Í fréttaskýringu CNN kemur m.a. fram í máli sérfræðinga að hægt er að komast hjá því að sjást á ratsjám með því að fljúga mjög lágt. Þá eru stundum „svört“ svæði, oftast lítil, sem ekki sjást á ratsjám.

Jeffrey Beatty, öryggisráðgjafi og fyrrverandi sérfræðingur hjá FBI, segir að með góðum undirbúningi hefði verið hægt að skipuleggja flugleiðina og komast hjá því að sjást á ratsjám.

Hann segir vissulega mögulegt að fljúga yfir fjöllin í þessum heimshluta án þess að sjást. Reyndur flugmaður gæti skipulagt flugið miðað við „svörtu“ svæðin. Hann segir þetta hafa verið gert þegar Bandaríkjamenn fóru til Pakistans til að finna Osama bin Laden. 

Í gær kom fram að hugsanlegt væri að flugvélinni hefði verið flogið mjög lágt, í innan við 5.000 feta hæð, yfir fjöllótt landsvæði til að komast hjá því að sjást á ratsjám. Fyrir þessu hafði malasíska dagblaðið New Straits Times heimildir. 

Þá sagði fyrrverandi yfirmaður indverska hersins við CNN í gær að ekki væri fylgst nákvæmlega með ratsjám hersins við Andaman og Nicobar-eyjar. Því væri hugsanlegt að vélinni hefði verið flogið þar yfir.

Bandarísk stjórnvöld telja ólíklegt að vélinni hafi verið flogið norður á bóginn. Hún hefði þá átt að sjást á ratsjám einhverra ríkja. Þá telja þau ósennilegt að henni hafi verið lent einhvers staðar, til þess þyrfti hún langa flugbraut.

Þá segja sérfræðingar það gríðarlega erfitt að fljúga svo stórri vél lengi í lágflugi. CNN hefur eftir Mary Schiavo, fyrrverandi yfirmanni hjá bandaríska samgöngumálaráðuneytinu, að algengt sé að vélar fljúgi í um 5.000 feta hæð og oftast sjáist þær þá engu að síður á ratsjám. „Ekki nema við séum að ofmeta getu ratsjárkerfa þessara landa,“ segir Daniel Rose, einn þeirra sérfræðinga sem fréttastofan ræðir við.

Fyrrverandi starfsmaður CIA segir að ekki megi gleyma því að mjög margar vélar séu á lofti í einu á þessum slóðum. „Það er mun erfiðara en flestir halda að fljúga utan ratsjársviðs,“ segir Buck Sexton. Ratsjár nemi flestar flugvélar yfir landi. Hins vegar sé ekki sömu sögu að segja sé þeim flogið yfir hafi. Því telur hann vænlegra að leita í sjónum.

Sérfræðingarnir segja hins vegar að allt sé mögulegt. En til þess að komast óséður langa leið í lofti þurfi mikla þekkingu og gríðarlegan undirbúning.

Ein kenningin sem nú er í umræðunni er sú að vélin hafi sést á ratsjám einhverra landa í Asíu. Yfirvöld þar séu hins vegar hikandi að gefa slíkt upp þar sem þau vilji ekki opinbera hversu stóru svæði þau fylgist með.

mbl.is

Bloggað um fréttina