Segja að staðgöngumóðirin hafi logið

Ástralskir foreldrar Gammys, drengs með Downs-heilkenni sem taílensk staðgöngumóðir fæddi, segja hana hafa blekkt heiminn.

Ekki sé rétt að þau hafi neitað að taka við barninu heldur hafi þau fengið upplýsingar um að hann væri hjartveikur og ætti mjög skammt eftir ólifað.

Líffræðilegu foreldrarnir harðlega gagnrýndir

Taílenska staðgöngumóðirin sór þess eið í gær að yfirgefa drenginn aldrei. Hún er 21 árs, heitir Patt­aramon Chan­bua og á fyrir tvö börn. Gammy hefur legið á sjúkrahúsi síðastliðna daga vegna sýkingar í lunga og hjartagalla en hann fæddist í desember.

Parið, sem ekki hefur verið nafngreint, hefur hlotið mikla gagnrýni. Chanbua sagði í viðtali við AFP-fréttaveituna að hjónin hefðu tekið við tvíburasystur drengsins en neitað að taka við honum.

Sagði hún einnig að áströlsku for­eldr­arn­ir hefðu viljað að hún færi í fóst­ur­eyðingu eft­ir að í ljós kom að dreng­ur­inn væri með Downs-heil­kenni. Því hefði hún neitað.

Gammy átti skammt eftir ólifað

Í tilkynningu frá foreldrunum sem birt var í blaðinu Bunbury Mail í Ástralíu segir að staðhæfingar staðgöngumóðurinnar séu rangar. Þau hafi ekki haft vitneskju um að drengurinn væri með Downs-heilkenni en þau hafi þó vitað að hann væri hjartveikur.

„Gammy var mjög veikur þegar hann fæddist og líffræðilegum foreldrum hans var sagt að hann myndi ekki lifa af, að hann ætti einn dag, í mesta lagi, ólifaðan og því ættu þau að kveðja,“ sagði fjölskylduvinur í samtali við blaðið.

Þá áttu tvíburarnir að koma í heiminn á alþjóðlegu sjúkrahúsi í Taílandi en staðgöngumóðirin fór annað og ógilti þannig samninginn, að sögn foreldranna. Samkvæmt þessu höfðu foreldrarnir ekki rétt á að fá börnin en staðgöngumóðirin samþykkti loks að láta stúlkuna af hendi.

Miður sín að geta ekki tekið Gammy með sér

„Líffræðilegu foreldrarnir voru miður sín að geta ekki tekið drenginn með sér og vildu aldrei skilja hann eftir, en ef þau hefðu beðið hefðu þau átt á hættu að missa stúlkuna líka,“ sagði vinur þeirra í samtali við blaðið. Þá sagði hún einnig að ekki væri rétt að þau hefðu hunsað Gammy þegar þau heimsóttu sjúkrahúsið.

„Þau báðu fyrir því að Gammy myndi lifa en læknarnir sögðu þeim að hann væri of veikur, ekki vegna þess að hann væri með Downs-heilkenni heldur vegna sýkingarinnar í hjartanu og lungunum.“

„Ég hef aldrei logið eða falið neitt,“ sagði Chanbua í samtali við AFP-fréttaveituna eftir að hún heyrði viðbrögð líffræðilegu foreldranna.

Frétt mbl.is: „Mun aldrei yfirgefa Gammy“ 

Frétt mbl.is: Yfirgáfu barn með Downs-heilkenni. 

Líffræðilegir foreldrar Gammy segja að staðgöngumóðirin hafi blekkt heiminn.
Líffræðilegir foreldrar Gammy segja að staðgöngumóðirin hafi blekkt heiminn. Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy
Gammy.
Gammy. Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy
mbl.is