Allt Vesturlöndum að kenna segir Pútín

Vesturlönd bera ábyrgð á átökunum í Úkraínu að sögn Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Pútín lét hafa þetta eftir sér í viðtali við egypskt dagblað í dag. Hann á nú í viðræðum við leiðtoga Frakklands og Þýskalands um að binda endi á stríðið milli valdhafa í Úkraínu og skæruliða sem eru hallir undir rússnesk yfirráð.

Að sögn Pútíns hafa vestræn ríki rofið heit um að auka ekki umsvif Atlantshafsbandalagsins og þau hafa neytt lönd til þess að velja á milli sín og Rússlands. Rússnesk yfirvöld neita því að bera ábyrgð á skæruliðum sem styðja rússnesk yfirráð í Úkraínu. Þau segjast hvorki hafa útvegað þeim vopn né heldur hermenn.

Yfir 5.300 hafa látist og um ein og hálf milljón íbúa í Austur-Úkraínu hafa hrakist á brott af heimilum sínum vegna átakanna undanfarna mánuði.

Í frétt BBC kemur fram að kanslari Þýskalands, Angela Merkel, ætli að fara yfir stöðu friðarviðræðna með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna en hún og Franço­is Hollande, forseti Frakklands, hafa stýrt viðræðum við yfirvöld í Úkraínu og Rússlandi um vopnahlé.

mbl.is