„Uppljóstrari býr yfir upplýsingum“

Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP

Þýskur einkaspæjari segir uppljóstrara hafa haft samband við sig, sem segist búa yfir áður óþekktum upplýsingum um vélina sem talin er hafa verið skotin niður af Rússum yfir Úkraínu í júlí á síðasta ári.

Bandarísk stjórnvöld telja að Rússar hafi haldið að um væri að ræða herflugvél og að vélin hafi verið skotin niður í misgripum. Rússar harðneita þessu og benda á úkraínska herinn. Úkraínsk stjórnvöld harðneita aftur á móti þeirri ásökun.

Einkaspæjarinn sem um ræðir var ráðinn af ónafngreindum aðila til þess að komast til botns í málinu. Þessi óþekkti aðili hefur lofað 30 milljónum punda til hvers sem kann að búa yfir upplýsingum sem gætu leitt til að málið verði upplýst. Hinn þýski einkaspæjari segist ekki sjálfur vita hver hafi ráðið hann til verksins, heldur fara samskipti þeirra í gegnum þriðja aðila í Sviss.

Hann vill heldur ekki gefa upp hvaða upplýsingar uppljóstrarinn telur sig hafa. „Ég er búinn að koma upplýsingunum frá uppljóstraranum til skjólstæðings míns og er minni aðkomu að málinu því lokið. Ég býst við að upplýsingarnar komi fljótlega fram í dagsljósið. Enginn lofar svona hárri upphæð til þess að halda upplýsingunum síðan leyndum,“ sagði hann í samtali við tímaritið Spiegel.

Stuttu síðar var hins vegar komið annað hljóð í manninn þegar Spiegel ræddi aftur við hann. „Ég óskaði sjálfur eftir því við skjólstæðinginn minn að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar. Ég óttast hins vegar að þessar upplýsingar fái aldrei að sjá dagsljósið.“ 

Sjá frétt Independent.

Brak úr MH17, farþegaþotu Malaysian Airlines.
Brak úr MH17, farþegaþotu Malaysian Airlines. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert