Framsal Guzmáns undirbúið

Mexíkósk yfirvöld hófu undirbúning að framsali eiturlyfjabarónsins Joaquíns „El Chapo“ Guzmáns til Bandaríkjanna. Þau krefjast svara frá bandaríska leikaranum Sean Penn um fund þeirra tveggja og viðtal sem Penn tók við glæpamanninn sem var á flótta.

Fyrir flótta glæpamannsins í júlí í fyrra hafði forseti Mexíkós, Enrique Pena Nieto, neitað beiðni bandarískra yfirvalda um að framselja El Chapo þangað fyrir glæpi sína, þar á meðal eiturlyfjasmygl og morð. Guzmán er eftirlýstur í sex ríkjum Bandaríkjanna. 

Guzmán er kominn á bak við lás og slá í sama fangelsi og hann flúði úr 11. júlí í fyrra með ævintýralegum hætti.

Frétt mbl.is: Ekki bíómynd heldur flótti

Yfirvöld verja ákvörðun sína um að senda hann aftur í Altiplano-fangelsið með því að það sé eitt það öruggasta í landinu og búið sé að koma fyrir járnstöngum undir gólfinu í klefunum. Eins hafi skriðdreka verið komið fyrir við fangelsið. Guzmán flúði einnig úr fangelsi árið 2001 og náði að ganga mun lengur frjáls þá eða þar til í febrúar 2014. Sautján mánuðum síðar var hann laus á ný en á annan tug fangavarða voru hnepptir í varðhald í tengslum við flóttann.

Yfirvöld vilja nú yfirheyra Penn um fund hans og Guzmáns í október enda sé enn margt á huldu um fund þeirra. 

Denis McDonough, talsmaður Hvíta hússins, segir í viðtali við CNN að fundur tvímenninganna veki margar áhugaverðar spurningar. 

Tímaritið Rolling Stone birti á laugardag viðtalið sem Penn tók við Guzmán. Þrátt fyrir að Penn og þeir sem komu að fundi þeirra hafi gert ýmislegt til þess að halda þessu leyndu herma heimildir innan úr röðum mexíkósku lögreglunnar að þetta hafi leitt hana á slóðir fangans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert