Pútín tilkynnir bóluefni gegn ebólu

Pútín sækir messu fyrr í þessum mánuði.
Pútín sækir messu fyrr í þessum mánuði. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir Rússa hafa þróað bóluefni gegn ebólu, sem hefur dregið þúsundir til dauða í vesturhluta Afríku. Það var fréttastofan RIA Novosti sem hafði fregnirnar eftir forsetanum en engar upplýsingar voru gefnar um efnið; hvorki nafn, hvernig það virkaði né hver framleiðandinn væri.

„Við höfum góðar fréttir,“ hafði fréttastofan eftir forsetanum. „Við höfum skráð lyf gegn ebólu sem rannsóknir hafa sýnt að er afar áhrifaríkt; áhrifaríkara en þau lyf sem hafa verið notuð til þessa.“

Ekkert bóluefni hefur verið fáanlegt gegn ebólu fram að þessu né lækning við sjúkdómnum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hins vegar gefið heimild fyrir hraðara ferli við þróun slíkra lyfja.

Veronika Skvortsova, heilbrigðisráðherra Rússlands, sagði á ríkisstjórnarfundi að Rússar hefðu þróað bóluefni sem væri „einstakt“ og ætti sér enga hliðstæðu. Hún hélt því einnig fram í október árið 2014 að Rússar hygðust afhjúpa þrjú bóluefni gegn ebólu innan þriggja mánaða og að eitt þeirra væri tilbúið fyrir tilraunaprófanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert