Afdrep áróðursmeistarans

Joseph Goebbels var áróðursmeistari Hitler.
Joseph Goebbels var áróðursmeistari Hitler. Ljósmynd/Bundesarchiv

Sagan hvílir þungt á fasteignamarkaðnum í Þýskalandi en besta dæmið er sveitasetur norður af Berlín, sem hefur verið á sölu í 15 ár. Eignin var eitt sinn í eigu Joseph Goebbels, áróðursmeistara Hitler, og það hefur reynst þrautin þyngri fyrir borgaryfirvöld að finna ákjósanlega kaupendur.

Sveitasetrið er fyrsta flokks eign, að minnsta kosti tæknilega séð, en yfirvöld í Berlín hafa hins vegar viðurkennt að hún sé lítið meira en myllusteinn um háls þeirra og eru uggandi yfir því að setrið falli í rangar hendur.

Fasteignafélag borgarinnar, Berlin Immobilienmanagement (BIM), hefur gefist upp á því að selja.

„Ég óttast mjög að eigninni verði breytt í helgidóm nasista og ég tel að við ættum ekki að taka þá áhættu,“ segir Birgit Moehring, framkvæmdastjóri BIM, en vonir standa nú til að það takist að finna leigjanda að eigninni í stað kaupanda.

Sveitasetrið stendur við Bogden-vatn og var afdrep áróðursmeistarans utan stórborgarinnar. Það var „ástarhreiður“ Goebbels og þangað heimsóttu hann upprennandi leikkonur og aðrar ástkonur hans.

Berlín keypti landið ásamt litlum bústað árið 1936 og gaf Goebbels í 39 ára afmælisgjöf en nasistinn lét reisa mun stærri byggingu á landinu, sem var kostuð af UFA, kvikmyndaveri sem Goebbels stjórnaði harðri hendi.

Goebbels-fjölskyldan. Búið er að breyta myndinni og bæta inn á …
Goebbels-fjölskyldan. Búið er að breyta myndinni og bæta inn á hana stjúpsyni Goebbels, Harald Quandt. Ljósmynd/Bundesarchiv

Í niðurníðslu

Að sögn Roberto Mueller, sem hefur unnið við það að gæta setursins frá 1984, skartar setrið enn stórum upprunalegum gluggum með mikilfenglegu útsýni, veggklæðningu úr við og innréttingum úr marmara.

Það er hins vegar í niðurníslu; illa farið vegna kulda og raka.

Goebbels og eiginkona hans Magda frömdu sjálfsvíg í neðanjarðabyrgi Hitler í maí 1945, eftir að Magda hafði myrt börnin þeirra sex. Það er hins vegar ekki bara tengingin við Goebbels sem hefur erfiðað söluna á sveitasetrinu, heldur stendur það á sama landi og austur-þýski kommúnistaflokkurinn reisti æfingamiðstöð fyrir æskulýðssamtök flokksins, Freie Deutsche Jugend, eftir stríð.

Flokkurinn nýtti húsnæðið einnig til að taka á móti gestum frá „bræðraríkjum“ á borð við Víetnam, Kúbu og Angóla, en á þessum tíma var hýsti sveitasetur Goebbels verslun og barnaheimili fyrir FDJ.

Byggingarnar fjórar, sem reistar voru eftir stríð, telja um 1.400 fermetra og eru, líkt og villa Goebbels, að grotna niður.

Garðarnir við þjálfunarmiðstöð Freie Deutsche Jugend.
Garðarnir við þjálfunarmiðstöð Freie Deutsche Jugend. AFP

Jafnað við jörðu?

Að sögn Moehring eru byggingarnar sem hýstu FDJ án vatns og rafmagns. Hún viðurkennir að það muni kosta mikla fjármuni að koma þeim í horf en síðustu misseri hafa þær verið nýttar við kvikmyndatökur, m.a. fyrir Alone in Berlin, með Emmu Thompson og Brendan Gleeson í aðahlutverkum.

„Það sem myndi virkilega höfða til okkar væri að einhver kæmi með skynsamlega hugmynd um það hvernig má nota þennan sögulega stað,“ segir Moehring. Hún nefnir menntastofnun eða hótel sem möguleika.

BIM hefur átt viðræður við fjárfesta en það veldur vandkvæðum að sveitasetur Goebbels er verndað, sem fyrirbyggir stórfelldar breytingar á húsnæðinu. Moehring vill að vernduninni verði aflétt og segir vert að spyrja hvort það sé skynsamlegt að fella allar sögulegar byggingar undir verndunarákvæði.

Ef vernduninni verður aflétt kann að vera skynsamlegast að jafna húsið við jörðu, segir hún.

Þjóðverjar hafa ósjaldan staðið frammi fyrir ákvörðun um hvernig á að ráðstafa eignum sem tilheyra ógeðfelldu tímabili í sögu þjóðarinnar. Þannig hýsir Arnarhreiður Hitlers nú veitingastað, kaffihús og verslanir, og er sótt heim af þúsundum ferðamanna á ári hverju.

Þá hýsa mannvirkin á Tempelhof-flugvelli, sem voru reist í valdatíð nasista, og höfuðstöðvar Stasi nú tugþúsundir hælisleitenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert