Forgangsmál að handtaka Assange

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Forgangsmál er að hafa hendur í hári Julians Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, að mati bandarískra stjórnvalda. Þetta sagði Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í gær. Sagði ráðherrann að aukin áhersla yrði lögð á koma í veg fyrir að trúnaðargögn lækju úr stjórnkerfi landsins. 

Haft er eftir Sessions í frétt AFP að óásættanlegt væri hversu miklu magni trúnaðargagna hafi verið lekið. Í sumum tilfellum væri um að ræða mjög alvarleg mál. Rík áhersla yrði lögð á að hafa hafa upp á þeim sem bæru ábyrgð á því og koma þeim í fangelsi. Saksóknarar hafa unnið að því að undanförnu að undirbúa ákærur á hendur Assange og öðrum félögum í Wikileaks samkvæmt frétt dagblaðsins Washington Post.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um málið. Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvadors í London, höfuðborg Bretlands, síðan árið 2012 til þess að komast hjá því að verða framseldur til Svíþjóðar þar sem hann hefur verið sakaður um nauðgun. Hann hefur þvertekið fyrir að vera sekur og segist óttast að Svíar framselji hann til Bandaríkjanna vegna leka á miklu magni bandarískra trúnaðargagna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert