Ránsfengurinn fundinn

Allir skartgripirnir, sem var rænt úr skartgripaverslun á jarðhæð Ritz-hótelsins í París í vikunni, eru fundnir. Lögregla leitar enn tveggja úr hópi ræningjanna.

Ritz-hótelið er við Vendôme-torg í París og er eitt flottasta hótel borgarinnar. Ræningjarnir réðust inn á hótelið vopnaðir sveðjum og skammbyssum síðdegis á miðvikudaginn, brutu rúðu í skartgripaversluninni og rændu skartgripum og úrum. Ránsfengurinn er metinn á fjórar milljónir evra, 502 milljónir króna. 

Þrír úr hópi ræningjanna voru handteknir á staðnum þar sem þeir komu að læstum dyrum þegar þeir ætluðu að forða sér út af hótelinu. Hluti af ránsfengnum varð eftir á hótelinu en tveir ræningjanna komust á brott með hluta hans. 

Þremenningarnir eru allir um þrítugt og búsettir í Seine-Saint-Denis-hverfinu norður af París. Þeir eru allir góðkunningjar lögreglunnar og hafa ítrekað verið staðnir að vopnuðum ránum, ofbeldisglæpum og vörslu þýfis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert