Vilja ekki hertar reglur

AFP

Félag bandarískra byssueigenda, NRA, er andsnúið því að reglur verði hertar varðandi skotvopnaeign í kjölfar skotárásar í bandarískum framhaldsskóla nýverið. 

Í síðustu viku sagðist Donald J. Trump Bandaríkjaforseti styðja aðgerðir sem gera glæpamönnum erfiðara fyrir að festa kaup á skotvopnum þar vestanhafs. Um sameiginlegt frumvarp repúblikana og demókrata er að ræða og á það að tryggja að ríkis- og alríkisstofnanir veiti upplýsingar um einstaklinga sem komist hafa í kast við lögin og ætti sökum þess ekki að vera leyft að kaupa skotvopn.

Frá árásinni í Marjory Stoneman Douglas-menntaskólanum 14. febrúar hefur verið sótt hart að NRA og þess krafist að löggjöf varðandi byssueign verði hert.

Nikolas Cruz, nítján ára Bandaríkjamaður, varð 17 manns að bana í skotárás á nemendur í bænum Parkland í Flórída. Þá hafa yfir 290 skotárásir verið gerðar í skólum í Bandaríkjunum frá janúar 2013, en að meðaltali hefur verið gerð ein slík skotárás á viku.

Í kjölfar árásarinnar í Flórída var Trump harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína þegar kemur að hinni lausbeisluðu byssueign Bandaríkjamanna, en meðal þeirra sem lýstu yfir stuðningi við forsetaframboð hans á sínum tíma var Félag bandarískra byssueigenda (NRA). 

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert