Kim sótti um áritun með brasilískum passa

Forrit sem ber kennsl á fólk út frá andlitshlutföllum hefur …
Forrit sem ber kennsl á fólk út frá andlitshlutföllum hefur verið notað til að staðfesta að myndin sé af Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Skjáskot/Sky

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og faðir hans Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtogi landsins, notuðu brasilískt vegabréf sem þeir fengu með sviksamlegum hætti til að sækja um vegabréfsáritun til Vesturlanda á tíunda áratug síðustu aldar.  

Fréttastofa Sky-sjónvarpsstöðvarinnar hefur þetta eftir heimildamönnum innan evrópskra leyniþjónustustofnanna og segir vegabréf feðganna hafa verið gefin út með nöfnunum Josef Pwag og  Ijong Tchoi.

Kim Jong-il, sem lést árið 2011, notaði nafnið Ijong Tchoi og sonurinn nafnið Josef Pwag.

Segir Sky vegabréfin hafa verið notuð til að sækja um vegabréfsáritun í a.m.k. tveimur Evrópuríkjum og þó að vitað sé að norðurkóreska leiðtogafjölskyldan hafi ferðast undir fölsku flaggi hafi ljósrit af brasilísku vegabréfunum ekki verið birt áður.

„Þeir notuðu brasilísk vegabréf, sem greinilega sýna myndir af Kim Jong-un og Kim Jong-il, til að reyna að fá vegabréfsáritun frá erlendum sendiráðum,“ hefur fréttastofan eftir hátt settum starfsmanni vestrænnar leyniþjónustu sem ekki vildi láta nafns síns getið.

„Þetta sýnir áhuga þeirra á að ferðast og bendir til tilrauna fjölskyldunnar til að búa sér til mögulega flóttaleið.“

Notaðir til ferðalaga til Japan, Brasilíu og Hong Kong

Sendiráð Norður-Kóreu í Brasilíu neitaði að tjá sig um málið og brasilíska utanríkisráðuneytið sagði málið vera í rannsókn. Sky segir uppruna vegabréfanna hins vegar hafa verið staðfestan af brasilískum heimildamanni sem krafðist nafnleyndar. 

Þá hefur Sky eftir leyniþjónustustarfsmönnum að forrit sem ber kennsl á fólk út frá andlitshlutföllum hafi verið notað til að staðfesta að myndirnar séu af feðgunum.

Vegabréfin eru sögð hafa verið notuð til ferðalaga til Brasilíu, Japan og Hong Kong, en ekki er vitað hvort vegabréfsáritanir hafi fengist frá evrópskum ríkjum. Passarnir sem voru gefnir út árið 1996 eru þó með stimpli frá brasilíska sendiráðinu í Prag í Tékklandi.

Áður hefur verið greint frá því að Kim Jong-un hafi verið í alþjóðlegum skóla í Sviss í æsku og að hann hafi þá þóst vera sonur bílstjórans í sendiráðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert