Gito litli nær óþekkjanlegur

(T.v.) Gito litli lá í fósturstellingu í pappakassa er hann …
(T.v.) Gito litli lá í fósturstellingu í pappakassa er hann fannst. Á myndinni til hægri má sjá hvernig hann lítur út í dag.

Þegar hann fannst í fósturstellingu í pappakassa á eyjunni Borneó árið 2015 var haldið að hann væri dauður. Þar lá hann eins og múmía ofan í hlandpolli. Litli órangútaninn, sem fékk nafnið Gito, hefur nú braggast og er allur annar í dag.

Saga hans er sögð í máli og myndum á hinni vinsælu dýrafréttasíðu, The Dodo. Rifjað er upp að móðir hans hafi verið drepin af veiðimönnum og að Gito hafi verið skilinn eftir í pappakassa þar sem ekkert beið hans annað en dauðinn. Húð hans var orðin öskugrá og hann hafði misst nær allt hár. 

Nú er Gito hraustlegur og nýtur lífsins.
Nú er Gito hraustlegur og nýtur lífsins.

Í fréttinni kemur fram að „eigandi hans“ hefði keypt hann fyrir 30 dollara er hann var aðeins nokkurra mánaða gamall.

Það voru starfsmenn dýraverndunarsamtakanna International Animal Rescue, IAR, sem komu Gito til bjargar. Hann var strax fluttur á dýraspítala og er það talið kraftaverki líkast að hann skuli hafa lifað. 

Gito er nú að verða þriggja ára. Appelsínugulur feldurinn er kominn aftur og húðin orðin heilbrigð. Hann leikur sér í trjánum og nýtur lífsins. Hann elskar ávexti og nýtur samveru með öðrum munaðarlausum órangútönum í friðlandi. 

Þar er að finna fleiri unga órangútana sem hafa gengið í gegnum miklar þolraunir. Talsmenn dýraverndunarsamtakanna segja að það sé af mannanna völdum sem órangútanar eru í útrýmingarhættu. Sífellt meira land sé brotið til ræktunar og því hefur þrengt mjög að búsvæðum þeirra í Indónesíu og Malasíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert