Pútín vísar ásökunum til föðurhúsanna

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Vladimír Pútín forseti Rússlands segir að bresk stjórnvöld verði að útskýra nánar afstöðu sína í máli gagnsnjósnarans Sergei Skripal sem eitrað var fyrir á Bretlandseyjum. Pútín segir að fyrr muni viðræður milli ríkjanna um málið ekki hefjast. „Leysið málið af ykkar hálfu og svo skulum við ræða það við ykkur,“ segir í svari Pútíns til blaðamanns BBC sem spurði hvort að Rússar bæru ábyrgð á því að eitra fyrir Skripal og dóttur hans, Yuliu. 

Í frétt BBC um stöðu málsins segir að Theresa May forsætisráðherra Bretlands sé beitt miklum þrýstingi um að taka hart á málinu og þeim sem beri ábyrgð á því að eitra fyrir feðginunum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerðar voru opinberar á miðvikudag var þeim byrlað taugaeitri. Telja margir líklegt að Rússar hafi verið þar að verki.

Feðginin liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi. Sömu sögu er að segja um lögreglumanninn Nick Bailey sem kom á vettvang þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus fyrir utan verslunarmiðstöð í smábænum Salisbury fyrir rúmri viku.

May mun gefa skýrslu um stöðu málsins á þinginu síðar í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka