Rekinn frá óperunni

James Levine.
James Levine. AFP

Metropolitan-óperan í New York hefur rekið stjórnandann James Levine úr starfi eftir að hafa fengið áreiðanlegar upplýsingar um að hann hafi brotið kynferðislega á ungum tónlistarmönnum. Levine var um langt árabil andlit óperunnar út á við.

Levine var vikið tímabundið frá störfum í desember þegar ásakanir á hendur honum komu fyrst fram opinberlega. Levine var tónlistarstjóri óperunnar í 40 ár.

Í tilkynningu frá Metropolitan kemur fram að samstarfi óperunnar við Levine hafi alfarið verið slitið en Levine, sem fór á eftirlaun árið 2016 vegna heilsubrests, hafði ítrekað unnið sem stjórnandi hjá óperunni eftir það eða allt þangað til upplýst var um ofbeldið í fjölmiðlum.

Rannsókn málsins leiddi í ljós óyggjandi sannanir fyrir því að Levine hefði gerst sekur um kynferðislega áreitni og ofbeldi bæði áður og þegar hann starfaði fyrir Metropolitan-óperuna, segir í tilkynningu frá óperuhúsinu. 

Rannsókn málsins, sem stóð yfir í þrjá mánuði, og niðurstaða hennar þýðir að ein helsta stjarna tónlistarheimsins í Bandaríkjunum hefur fallið hratt af stjörnuhimni óperunnar. Kannski viðeigandi en síðasta verkið sem hann stjórnaði hjá óperunni var Sálumessa Giuseppes Verdis (Requiem) í desember.

Í tilkynningu frá óperunni kemur fram að það sé hlutverk hennar að tryggja starfsfólki og listamönnum vinnustað sem er öruggur og án hættu á áreitni. Þar sem borin er virðing fyrir fólki.

Met hefur hins vegar veitt sjálfri sér syndaaflausn í málinu en óperan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekkert gert í málinu þrátt fyrir ásakanir á hendur Levine árum saman fyrr en kynferðislegt ofbeldi af hálfu valdamikilla manna komst í kastljós fjölmiðla í fyrra. 

Fransk-kanadíski stjórnandinn Yannick Nezet-Seguin mun taka við starfi tónlistarstjóra Metropolitan-óperunnar af Levine.

Levine, sem er 74 ára gamall, er sagður hafa beitt unga tónlistarmenn kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru berskjaldaðir fyrir slíku af hálfu stjörnunnar þegar þeir voru enn í námi. Levine, sem þótti hafa mikla útgeislun, starfaði oft sem gestakennari við tónlistarskóla og tónlistarhátíðir í Bandaríkjunum. 

Í grein sem rannsóknarblaðamenn við Boston Globe unnu og birt var fyrr í mánuðinum koma fram lýsingar fyrrverandi nemenda hans við Cleveland Institute of Music á því að Levine, sem var hetja ungra tónlistarmanna, hafi ekki bara beitt þá kynferðislegu ofbeldi heldur stjórnað lífi þeirra.

Þeir lýsa því hvernig Levine hafi þrýst á þá að slíta tengsl sín við utanaðkomandi heim og lýsa yfir tryggð við hann á sama tíma og hann stýrði samvistum þeirra við hann, allt frá því að stúdera óperur til kynlífs.

„Ég hélt að það væri kynlíf til þess að láta mig bæta mig, kynlíf sem gerði mér lífið auðveldara,“ segir fiðluleikarinn Albin Ifsich, sem var tvítugur námsmaður þegar ofbeldið átti sér stað. „Augljóslega var því ekki þannig farið en við vorum látnir halda að svo væri.“

Stjörnuhrap Levines hófst í desember þegar New York Post birti frétt upp úr skýrslu lögreglunnar frá árinu 2016 þar sem unglingur sakaði Levine um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi árum saman. Ofbeldið hófst þegar fórnarlambið var 15 ára á Ravinia-tónlistarhátíðinni fyrir utan Chicago en hátíðin hefur nú slitið öllu sambandi við Levine.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert