Vara við öðrum kólerufaraldri í Jemen

Jemenskt barn fær hér bólusetningu gegn barnaveiki. UNICEF segir að …
Jemenskt barn fær hér bólusetningu gegn barnaveiki. UNICEF segir að hægt væri að koma í veg fyrir fjölda sjúkdóma ef hjálparsveitum væri hleypt inn á átakasvæðin. AFP

UNICEF, barnahjálp Sameinuð þjóðanna, varar við að hætta sé á öðrum kólerufaraldri í Jemen í þessum mánuði. Rúmlega ein milljón barna sýktist af kóleru í landinu á síðasta ári vegna lélegs aðgengis að vatni og bólusetningu.

Geert Cappelaere hjá UNICEF segir að barn deyi nú á tíu mínútna fresti í Jemen af sjúkdómum sem koma mætti í veg fyrir. „Við skulum ekkert vera að blekkja okkur. Kóleran mun snúa aftur,“ sagði Cappalaere í samtali við Guardian. „Þegar regntíminn hefst eftir nokkrar vikur og án mikillar fjárfestingar nú þegar, þá mun kólera leggjast aftur á jemensk börn.“

Cappelaere segir UNICEF nú hafa mánuðum saman verið í samningaviðræðum við stríðandi öfl um að fá leyfi til að hefja bólusetningar og að sumar hersveitir hafi bannað að sólarrafhlöður, sem eru nauðsynlegar fyrir brunndælur, séu fluttar inn á svæðin.

„Við notum endalausan tíma, orku og peninga í málefni sem við ættum ekki einu sinni að þurfa að semja um. Líf barna eiga ekki að vera samningsatriði,“ sagði hann.

Jemenskt barn í borginni Taez í suðurhluta landsins virðir fyrir …
Jemenskt barn í borginni Taez í suðurhluta landsins virðir fyrir sér eyðileggingu eftir loftárásir. AFP

Á fréttamannafundi í Jórdaníu, þar sem hann greindi frá vikulangri heimsókn sinni til Jemen, sakaði Cappalaere ráðandi fylkingar í átökunum um að heyja „grimmilegt og tilgangslaust stríð gegn börnum“.

„Engir þátttakendur í þessu stríði hafa í svo mikið sem eitt augnablik sýnt nokkra virðingu fyrir þeirri helgu meginreglu að vernda börn.“

Neyðarástand sé einnig í menntunarmálum í landinu þar sem um hálf milljón barna til viðbótar geti ekki lengur gengið í skóla. „Tvær milljónir jemenskra drengja og stúlkna ganga ekki lengur í skóla eða hafa aldrei fengið tækifæri til að ganga í skóla,“ sagði hann. Rúmlega 500 skólabyggingar hafi verið eyðilagðar og meirihluti kennara fái engin laun.

Þrjú ár eru nú frá því að stríðið í Jemen hófst og hafa UNICEF og fjöldi annarra hjálparsamtaka hvatt stríðandi fylkingar til að koma saman við samningaborðið þar sem hernaðarlausn muni ekki bjarga landinu frá frekari hörmungum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert