Víst hægt að kenna gömlum hundi að sitja

Að kenna gömlum hundi að sitja er ekki eins vonlaust og oft er haldið fram að því er vísindamenn við dýralækningadeild háskólans í Vínarborg hafa komist að. 

Tíkurnar Miley og Tiara eru af border collie-kyni. Þær hafa tekið þátt í rannsókn við háskólann og við fyrstu sýn mætti ætla að þær hefðu ekki lært margt nýtt en að minnsta kosti hafa þær skemmt sér konunglega. 

Tilraunin sem þær taka þátt í felst í því að hlaupa að snertiskjá þar sem sjá má einn kringlóttan hlut og einn ferningslaga. Í hvert sinn sem þær snerta hringinn með trýni sínu fá þær verðlaun. 

Miley og Tiara eru í hópi hundruða hunda sem tekið hafa þátt í rannsókninni og er niðurstaða hennar sú að eldri hundar njóta góðs af því að leysa einfaldar þrautir rétt eins og krossgátur geta hjálpað mönnum að halda heilabúi sínu í þjálfun. 

„Stundum finnst okkur að eldri hundar eigi bara að fá að setjast í helgan stein á sófanum og leyfa þeim að sofa allan daginn. Og það er alveg í lagi,“ segir Lisa Wallis, einn höfunda rannsóknarinnar. „En þú ert ekki að gera neitt góðverk með því.“

Jafnvel þótt að eigendur gæti þess að hundarnir fái næga hreyfingu fram eftir aldri þá hefur það ekki mikið með andlega heilsu þeirra að gera, segir Ludwig Huber, einn haf aðalhöfundum rannsóknarinnar. „Heilinn þarf örvun og þrautir til að leysa,“ segir hann. 

Hann segir að snertiskjái megi m.a. nota í þessum tilgangi. Hægt er að byrja á einföldum þrautum en þyngja þær svo smátt og smátt. Hundarnir sem tóku þátt í rannsókninni fengu m.a. það verkefni að snerta hluti á hreyfingu á skjánum og að velja á milli „góðra“ og „slæmra“ mynda. 

 Yngri hundar voru fljótari að ná árangri en þeir eldri sýndu einnig miklar framfarir.

Rannsóknarteymið segir að enn sem komið er sé erfitt að nota þessa þjálfunaraðferð heima en að verið sé að vinna að hugbúnaði fyrir hunda í þessum tilgangi. „En blaut trýni verða alltaf til vandræða í þessu,“ segir Wallis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert