300 liðsmenn Ríkis íslams dæmdir til dauða

Hin franska Djamila Boutoutaou fékk lífstíðar fangelsisdóm hjá íröskum dómstól …
Hin franska Djamila Boutoutaou fékk lífstíðar fangelsisdóm hjá íröskum dómstól fyrir aðild sína á Ríki íslams. AFP

Dómstólar í Írak hafa dæmt rúmlega 300 manns til dauða, þar á meðal tugi erlendra ríkisborgara, fyrir aðild sína að hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

AFP-fréttastofan segir tvo dómstóla hafa réttað í málunum, annars vegar dómstól í nágrenni borgarinnar Mósúl, sem var um tíma eitt af höfuðvígum Ríkis íslams, og svo dómstól í höfuðborginni Bagdhad sem hefur sér um að dæma í málum kvenna og erlendra ríkisborgara.

Frá því í janúar á þessu ári hafa 97 erlendir ríkisborgarar verið dæmdir til dauða og 185 hafa verið úrskurðaðir í lífstíðarfangelsi samkvæmt heimildarmanni innan dómskerfisins.

Flestar kvennanna sem hafa hlotið dóm til þessa komu til landsins frá Tyrklandi og ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi. Þýsk kona var þó dæmd til dauða í janúar fyrir að tilheyra Ríki íslams og frönsk kona var í gær dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir að tengjast samtökunum. 

Dómstóllinn í Tel Keif , nærri Mósúl, dæmdi síðan 212 manns til dauða, 150 til lífstíðarfangelsisvistar og 341 til viðbótar fengu skemmri dóm að því er segir í yfirlýsingu frá Abdel Sattar Bayraqdar  talsmanni dómstólsins.

Þá greindi dómstólaráðuneyti landsins frá því á mánudag að 11 manns hefðu þegar verið teknir af lífi í Írak vegna brota á hryðjuverkalögum, en að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch er Írak í fjórða sæti á lista yfir þau ríki sem framkvæma flestar aftökur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert