Dæmdir fyrir svindl á bílprófi

Norska lögreglan við umferðareftirlit. Allt að eitt þúsund manns í …
Norska lögreglan við umferðareftirlit. Allt að eitt þúsund manns í Noregi eru taldir hafa staðist skriflega bílprófið á vafasaman hátt. Fimm hafa þegar hlotið dóm fyrir háttsemi sína. Mynd/Wikipedia/Norska dómsmálaráðuneytið/Justis- og politideparementet

Gjaldið fyrir ólögmæta aðstoð við skriflega hluta ökumannsprófsins í Noregi er að sögn Magnars Pedersen hjá lögreglunni í Vestfold-fylki 1.500 til 6.000 norskar krónur sem samsvarar um það bil 19.000 til 77.000 íslenskum krónum. Hjón frá Sýrlandi hafa nú verið handtekin og fimm aðrir hlotið fangelsisdóma í máli sem snýst um prófsvindl með aðstoð falinna myndavéla og örsmárra hljóðnema, allt til þess að illa lesnir prófmenn geti öðlast ökuréttindi í Noregi.

„Við höfum ástæðu til að ætla að þeir sem hafa staðist skriflega prófið með þessum hætti séu mun fleiri,“ segir Jon Molnes, forstöðumaður rannsóknardeildar vegamálastjóra í Noregi, í samtali við norska dagblaðið VG og vísar þar til þeirra 35 einstaklinga sem nú eru ákærðir í máli er hófst sem samstarfsverkefni norsku lögreglunnar, Umferðarstofunnar þar í landi og vegamálastjóra.

Þetta samstarfsverkefni hefur nú leitt til handtöku hjóna af sýrlensku bergi brotnum sem hafa lagt sig í líma við að læra námsefnið til skriflega ökumannsprófsins upp á tíu í einkunn. Þeir sem hyggjast færa sér þjónustu hjónanna í nyt þurfa aðeins að koma sér upp sérsaumaðri skyrtu með opi fyrir myndavél farsíma, sem límdur er við brjóst próftaka, og örsmáum hljóðnema í eyra. Hjónin sitja svo í bíl sínum á stæði við húsnæðið þar sem prófið á sér stað og horfa á skjá tölvunnar gegnum myndavél símans. Þylja þau svo fræði sín í eyra próftaka sem velur annaðhvort valkostinn A, B eða C á prófinu og kviknuðu grunsemdir starfsmanna Umferðarstofu þegar margfaldir fallkandídatar stóðust prófið skyndilega með æðsta láði.

Norski fjölmiðillinn TV2 fjallaði um málið í fyrrahaust og hafði þá eftir Lage André Granås hjá netafbrotadeild norsku lögreglunnar að þar á bæ óttuðust menn að allt að eitt þúsund manns í Austur-Noregi einum gætu hafa öðlast ökuréttindi með þessum hætti.

Umferðarstofa Noregs hefur nú þegar afturkallað ökuréttindi 45 einstaklinga vegna málsins en Reidar Steinsvik, verjandi konunnar sem grunuð er í máli hjónanna frá Sýrlandi, segir að skjólstæðingur hans neiti sök í málinu.

Þeir, sem hingað til hafa hlotið dóma í máli þessu, ákærðir fyrir að þiggja aðstoð við að standast skriflegt ökumannspróf, hafa hlotið 24 daga fangelsisdóm, óskilorðsbundið. Verði hjónin fundin sek gætu þau þó átt von á þyngri refsingu sem aðalmenn í málinu auk þess sem samverknaður yrði metinn þeim til refsiþyngingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert