160 börnum bjargað úr „barnaverksmiðju“

Móðir með barn sitt í Nígeríu. Mynd úr safni.
Móðir með barn sitt í Nígeríu. Mynd úr safni. AFP

Rúmlega 160 börnum hefur verið bjargað úr svo nefndri „barnaverksmiðju“ og af tveimur ólöglegum munaðarleysingjahælum í Lagos, höfuðborg Nígeríu að því er BBC hefur eftir embættismanni.

Eru sum barnanna sögð hafa verið misnotuð kynferðislega,“ að sögn embættismannsins Agboola Dabiri.

Nokkuð er um að yfirvöld í Nígeríu ráðist til atlögu gegn svo nefndum „barnaverksmiðjum“, lofa forsvarsmenn þeirra í sumum tilfellum ógiftum barnshafandi konum heilbrigðisþjónustu en taka svo af þeim börnin, í öðrum tilfellum er konum nauðgað og þær gerðar óléttar.

Börnin eru svo ýmist seld til ættleiðingar, nýtt í barnavinnu, eða þá að þeim er smyglað til Evrópu þar sem þau eru ýmist látin vinna fyrir sér með vændi eða myrt sem hluti af trúarathöfnum.

Greindi lögreglan í Lagos fjölmiðlum frá því í febrúar að búið væri að leysa mál konu sem hafði farið inn á einkastofu til að eignast barn. Barnið var síðan tekið af henni og selt.

Dabiri, sem er forstjóri æskulýðsmála í Lagos, sagði 100 stúlkum og 62 drengjum hafa verið bjargað í þessum síðustu aðgerðum lögreglu og sagði hann börnin nú vera á ríkisreknu munaðarleysingjahælum þar sem þau njóti verndar.

Árið 2013, var 17 ófrískum stúlkum á táningsaldri og 11 ungabörnum bjargað úr barnaverksmiðju í Imo fylki í Nígeríu og sögðu stúlkurnar að einn og sami maðurinn hefði nauðgað þeim öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert