Óskar sér móður

Óskar nýfæddur og óviss um í hvern fótanna hann ætti …
Óskar nýfæddur og óviss um í hvern fótanna hann ætti að stíga eftir að móðir hans lifði fæðingu hans ekki af. Allt fór þetta þó vel og nú á hann sænska mömmu. Ljósmynd/Ingvild Myhr/Resa Stall

Óskar litli kom í heiminn aðfaranótt 2. maí og er því bara fjögurra daga gamall. Harmsaga hans hófst þegar við fæðingu þar sem móðir hans lifði ekki kastið og safnaðist til feðra sinna um morguninn, þegar afkvæmi hennar var aðeins sex klukkustunda gamalt.

Þessir dapurlegu atburðir urðu í hesthúsinu Resa Stall í bænum Sarpsborg, suður af Ósló, og var þegar hafist handa við að finna munaðarlausu folaldinu nýja móður. Fólst leitin einkum í umfjöllun um málið á Facebook-síðu Resa Stall en dagblaðið Sarpsborg Arbeiderblad veitti málinu fljótlega athygli og skömmu síðar dagblaðið VG og tóku hlutirnir þá að núast áleiðis.

Óskar alsæll í haganum með hinni nýju móður sinni.
Óskar alsæll í haganum með hinni nýju móður sinni. Ljósmynd/Sonja-irene Johansen/Alrunasstuteri

„Við fengum mikil viðbrögð frá Svíþjóð og báðu margir hryssueigendur okkur bara um að senda Óskar yfir landamærin,“ sagði Ingvild Myhr hjá Resa Stall í samtali við mbl.is í dag. Hins vegar var galli á gjöf Njarðar. „Hann var svo ungur að hann var ekki enn skráður og þar með ólöglegt að flytja hann til Svíþjóðar án réttra pappíra þar sem lögum samkvæmt var hann ekki til,“ sagði Myhr.

Allt bjargaðist þetta þó með giftusamlegu samstarfi norskra og sænskra yfirvalda sem brugðu skjótt við á föstudaginn og útveguðu pappírana til að Óskar mætti ferðast til nýrrar móður í Svíþjóð.

Ekki var þó sopið kálið...

...þótt í ausuna væri komið, að sögn Myhr, því nýi móðurkandídatinn þyrfti að samþykkja að taka brjóstmylkinginn að sér. Litist hryssunni ekki á ráðahaginn hefði hún neitunarvald. „En hún er búin að því núna svo sennilega er Óskar kominn með nýjan uppalanda,“ sagði Myhr og kallaði sérstaklega eftir mynd fyrir mbl.is frá Alrunasstuteri í Svíþjóð þar sem móðirin nýja og næsta heimili Óskars eru til húsa.

Myhr vildi að lokum nota tækifærið við spjallið til að koma á framfæri þakklæti til allra sem lögðu gjörva hönd á plóg við að leita Óskari móður, hann hafi um tíma fengið shetlands-smáhryssu sem „staðgöngumóður“ á Resa Stall en ljóst hefði verið frá byrjun að sú sambúð ætti litla framtíð fyrir sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert