Grunaði aldrei neitt

Harvey Weinstein og Georgina Chapman í febrúar í fyrra.
Harvey Weinstein og Georgina Chapman í febrúar í fyrra. AFP

Fyrrverandi eiginkona Harvey Weinstein segir í fyrsta viðtalinu, sem hún fer í síðan fjöldi kvenna sakaði Weinstein um kynferðisofbeldi, áreitni og hótanir, að hún hafi aldrei grunað hann um slíka hegðun.

Blaðamaður tímaritsins Vogue ræddi við Georgina Chapman í febrúar en það var birt í dag. Sjö mánuðir eru liðnir síðan fyrstu konurnar sökuðu hann og kynferðisofbeldi og áreitni. 

Wein­stein hef­ur verið sakaður um að hafa beitt yfir 100 kon­ur kyn­ferðis­legu of­beldi, allt frá nauðgun­um til áreitni síðan frétt­ir birt­ust um slík­ar ásak­an­ir á hend­ur hon­um í New York Times og New Yor­ker í októ­ber. 

Chapman segist hafa verið barnaleg og þegar ásakanirnar komu fram hafi hún verið „brotin og niðurlægð“.

Weinstein og Chapman gengu í það heilaga árið 2007 en hún yfirgaf hann nokkrum dögum eftir að fyrstu ásakanirnar gegn honum komu í dagsljósið. Chapman segist ekki hafa farið út í fimm mánuði eftir að fyrstu fréttirnar af Weinstein birtust.

„Ég skammaðist mín svo mikið og fannst það ekki rétt af mér að fara út,“ sagði Chapman í samtali við Vogue.

„Það er enn svo stutt síðan þetta gerðist en ég gekk upp stigann um daginn og snarstoppaði skyndilega. Mér leið eins og það væri ekkert loft eftir í lungunum,“ sagði Chapman en hún og Weinstein eiga tvö börn saman, fimm og sjö ára.

„Krakkarnir elska pabba sinn“

„Stundum er ég reið, stundum skil ég ekkert og stundum neita ég að trúa þessu. Ég græt þegar ég hugsa um börnin. Hvernig verður líf þeirra? Hvað mun fólk segja við þau? Krakkarnir elska pabba sinn.“

Chapman segist hafa misst fimm kíló á fyrstu fimm dögunum eftir að ásakanirnar gegn Weinstein rötuðu í fjölmiðla. „Ég gat ekki haldið neinu niðri,“ sagði Chapman en hún áttaði sig fljótlega á því að ekki var um einstakt atvik að ræða.

„Þá vissi ég að ég yrði að fara og taka krakkana með mér,“ sagði Chapman sem hélt að hjónaband hennar hefði verið gott.

„Weinstein var frábær sambýlismaður. Hann var vinur og hann studdi mig. Ég vildi að ég hefði einhver svör.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert