Fékk gervilimi í stað túnfiskdósa

Maya notaðist við gamlar túnfiskdósir áður en hún fékk gervilimi …
Maya notaðist við gamlar túnfiskdósir áður en hún fékk gervilimi að gjöf. AFP

Átta ára sýrlenskri stúlku, sem vakti heimsathygli fyrir að nota tómar túnfiskdósir sem gervilimi, hefur nú verið gefið viðeigandi stoðtæki í Tyrklandi.

Maya Merhi fæddist án fótleggja sökum sjaldgæfs erfðagalla og hefur undanfarið búið með föður sínum í flóttamannabúðum í Norðvestur-Sýrlandi eftir að hafa þurft að flýja heimili sitt í Aleppo sökum átaka. Þar var Maya ljósmynduð gangandi um á heimagerðum gervilimum úr gömlum túnfiskdósum og átti hún sýnilega erfitt með gang.

Maya og faðir hennar í flóttamannabúðunum áður en þau voru …
Maya og faðir hennar í flóttamannabúðunum áður en þau voru flutt til Istanbul. AFP

Gervilimina hannaði faðir Mayu, Muhammad, sem glímir við sama erfðagalla og voru þeir til þess gerðir að vernda hana fyrir heitri og skítugri jörðinni. Með dósunum náði Maya að feta sig fyrir utan tjald þeirra feðgina í búðunum og jafnvel komast í skólann.

Maya og faðir hennar í Istanbul.
Maya og faðir hennar í Istanbul. AFP

Myndirnar af Mayu fengu gríðarlega athygli og Rauði hálfmáninn í Tyrklandi ákvað að grípa inn í. Feðginin voru því flutt til Istanbúl í Tyrklandi þar sem þeim var boðin meðferð.

Samkvæmt Al Jazeera-fréttaveitunni tók þar stoðtækjasérfræðingur að nafni dr. Mehmet Zeki Culcu við feðginunum og breytti lífi þeirra til frambúðar með fríum stoðtækjum og meðferð.

„Hún er brosandi, við góða heilsu og lærir nú að ganga,“ segir Culcu um Mayu. Hann segir að það gæti tekið Mayu þrjá mánuði að fá fulla hreyfigetu en að „hún muni ganga“. Þá segir Culcu að túnfiskdósirnar hafi gefið Mayu mikið forskot þar sem hún er nú þegar vön því að ganga en ekki skríða líkt og hún þurfti að gera framan af. „Alveg hjálparlaust hefur faðir hennar snúið þjáningu þeirra í von,“ bætti Culu við.

Maya og faðir hennar hitta Mehmet Culcu.
Maya og faðir hennar hitta Mehmet Culcu. AFP

Síðan borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst hefur orðið sífellt erfiðara fyrir sjúka og slasaða að fá viðeigandi og oft lífsnauðsynlega læknisaðstoð. Sjúkrahús Sýrlandsstjórnar eru oft ekki aðgengileg og sjúkramiðstöðvar uppreisnarmanna oft skotmörk loftárása.

Rúmlega helmingur þeirra Sýrlendinga sem bjuggu í landinu áður en stríðið braust út hefur þurft að yfirgefa heimili sín, alls um tólf milljónir íbúa. Óvíst er hve margir hafa fallið í valinn en áætlað er að það séu að minnsta kosti 465.000 manns. Auk þess hefur rúm milljón íbúa slasast alvarlega á þessu sjö ára tímabili sem stríðið hefur geisað.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert