Eldingar auka eldhættuna

Vegir að Ljusdal lokaðir vegna skógarelda sem loga við þá.
Vegir að Ljusdal lokaðir vegna skógarelda sem loga við þá. AFP

„Ástandið er mjög óvenjulegt,“ segir Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, um skógareldana sem nú geisa víðsvegar um landið. Í dag er varað við þrumuveðri sem eykur enn hættuna á útbreiðslu eldanna vegna eldinga sem veðrinu fylgja. Ástandið er verra nú en í miklum eldum sem urðu í Västmanland árið 2014. „Við verðum að vera enn frekar á tánum,“ segir Lars Kranz, slökkviliðsstjóri í samtali við Aftonbladet.

Nú loga eldar á um 200 ferkílómetrum lands, að því er sænska ríkisútvarpið greinir frá. Barist er við um 60 elda á um 49 stöðum í landinu. Frakkar, Norðmenn og Ítalir hafa komið til aðstoðar en gagnrýnt hefur verið að Svíar hafi fáa sjálfboðaliða í slökkviliðum sínum og því hafi reynst erfitt að fást við eldana víða.

Löfven segist hafa heyrt þá gagnrýni og að talað sé um að stjórnvöld þurfi að vera betur undirbúin vegna þess að meiri öfgar séu í veðráttu nú en áður. „Ríkisstjórnin hefur hafið rannsókn á því hvernig styrkja megi björgunarlið í sveitarfélögunum.“

Í gærkvöldi höfðu tólf viðvaranir um hættuástand verið sendar út til íbúa í fimm sýslum í Svíþjóð. Íbúarnir hafa verið beðnir að yfirgefa heimili sín í bæjum og þorpum sem næst eru þeim svæðum sem brenna. 

Sprengihætta

Í Ljusdal í Gävleborg þurftu 100 manns að yfirgefa heimili sín í gærdag. Á svæðinu er orkuver sem eldarnir loga í nágrenni við. Sérútbúnar slökkviflugvélar frá Ítalíu hafa unnið að slökkvistarfi þar.

Á skotæfingasvæði í Älvdalen er sprengihætta og í morgun var hætt að notast við þyrlur við slökkvistarfið þar af þeim sökum. „Við þurfum að halda okkur í 800 metra fjarlægð í allar áttir, meira að segja upp í loftið,“ hefur Aftonbladet eftir sveitarstjórnarmanni. 

Skógareldarnir eru mestir í Gävleborg, Dölunum og í Jämtlandi. Vegna þurrkanna breiðast þeir hratt út. „Það er heitt og þurrt. Þetta er erfitt starf. Ég vil þakka öllum sem vinna við þessar erfiðu aðstæður,“ sagði forsætisráðherra Svíþjóðar í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert