„Hef aldrei verið eins hrædd á ævinni“

Hjónin Jóhanna Ósk Þorsteinsdóttir og Ómar Jökull Ómarsson voru að snæða kvöldverð á veitingastaðnum Azul á Legian-ströndinni á Balí í gærkvöldi þegar jarðskjálfti, 6,9 að stærð, reið yfir Lombok, næstu eyju við Balí.

„Ég hef aldrei verið eins hrædd á ævinni,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is. Skjálftinn fannst vel á Balí og lék veitingastaðurinn á reiðiskjálfi, en staðurinn er gerður úr bambus. Jóhanna segir að mikil skelfing hafi gripið um sig og að fólk hafi hlaupið út á ströndina. „Ferðamenn voru mjög hræddir en heimamenn ekki eins, en sumir heimamenn höfðu aldrei upplifað svona skjálfta,“ segir hún. Viðbrögð Jóhönnu við skjálftanum má sjá í myndskeiðinu hér að ofan.

Jóhanna Ósk og Ómar Jökull voru nýkomin til Balí þegar …
Jóhanna Ósk og Ómar Jökull voru nýkomin til Balí þegar skjálftinn reið yfir. Ljósmynd/Jóhanna Ósk Þorsteinsdóttir

Að minnsta kosti 98 létust í skjálftanum og þúsundir bygginga eyðilögðust. Skjálftinn vakti mikinn óhug meðal heimamanna en aðeins vika er síðan 17 létu lífið í skjálfta á eyjunni sem mældist 6,4 að stærð. Unnið er að því að flytja um 2.000 ferðamenn frá Lombok og Gili-eyjum, vinsælum ferðamannastöðum.

Jóhanna og Ómar komu til Balí í gær og er ferðalagið hluti af brúðkaupsferð hjónanna og segir Jóhanna það hafa verið ákveðið sjokk að hefja brúðkaupsferðina með þessum hætti. „Ég var farin að skoða að fara annað vegna hræðslu um að það kæmi fljóðbylgja. Við sváfum nánast ekkert í nótt og vorum tilbúin með allt við rúmið ef eitthvað myndi gerast,“ segir Jóhanna. Þau ætla þó ekki að breyta ferðaáætluninni og ætla að njóta næstu tveggja vikna á eyjunni. „Dagurinn í dag er búinn að vera svolítið erfiður en við reynum að vera jákvæð,“ segir Jóhanna.

Yfirvöld á Indónesíu gáfu út flóðbylgjuviðvörun í kjölfar skjálftans en henni var aflétt nokkrum klukkustundum síðar. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst í dag og fundu Jóhanna og Ómar vel fyrir einum í morgun.

Lögregla vinnur að því að flytja um 2.000 ferðamenn frá …
Lögregla vinnur að því að flytja um 2.000 ferðamenn frá Lombok og Gili-eyjum, vinsælum ferðamannastöðum. AFP

Vatns- og rafmagnslaust á gististaðnum

Balí og eyjarnar í kring eru vinsæll áfangastaður Íslendinga. Ólöf María Gunnarsdóttir er á ferðalagi um Balí ásamt þremur vinum sínum og fundu þau vel fyrir skjálftanum. Hópurinn var staddur á veitingastað á annarri hæð í Canggu á Balí þegar staðurinn byrjaði að hristast. „Þetta var mikil óvissa og óþægileg reynsla,“ segir Ólöf. Mikil skelfing og hræðsla greip um sig og fólk hljóp út af veitingastaðnum. „Stuttu seinna var fólk byrjað að tínast inn aftur á veitingastaðina en það var augljóst að þetta hræddi marga og var umtalað allt kvöldið,“ segir Ólöf.

Jarðskjálftinn hafði áhrif á ferðaáætlun Ólafar og félaga og þurftu þau að skipta um húsnæði þar sem vatns- og rafmagnslaust varð þar sem þau gistu. „Þetta var hræðileg lífsreynsla og erum við stanslaust að athuga hvort möguleiki sé á flóðbylgju,“ segir Ólöf.

Björgunarstarf stendur enn yfir og vinnur björgunarfólk að því að leita í rústum bygginga sem hrundu í skjálftanum. Skjálftinn olli skemmd­um á  bygg­ing­um og raf­magns­leysi í nokkr­um hverf­um bæði á Lombok og Balí.

Að minnsta kosti 98 létust í skjálftanum og þúsundir bygginga …
Að minnsta kosti 98 létust í skjálftanum og þúsundir bygginga eyðilögðust. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert