Tugmilljarða fjölskyldudeila í Kanada

Frank Stronach er 86 ára gamall auðjöfur. Hann hefur nú …
Frank Stronach er 86 ára gamall auðjöfur. Hann hefur nú sett fram tugmilljarða kröfur á hendur dóttur sinni og barnabörnum. AFP

Austurríski og kanadíski auðjöfurinn og fyrrverandi stjórnmálamaðurinn Frank Stronach, sem stofnaði bílavarahlutafyrirtækið Magna International, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur fjölskyldu sinni og fleirum fyrir að fara illa með fjármuni fjölskyldunnar og fyrir að útiloka hann sjálfan frá þeim sjóðum sem hann hefur safnað undanfarna áratugi.

Alls nema kröfur Stronach 520 milljónum kanadadollara, eða rúmum 46 milljörðum íslenskra króna. Þær hafa verið lagðar fram til dómstóls í Ontario í Kanada, þar sem Stronach bjó til fleiri ára. Krafan beinist gegn dóttur hans, Belindu Stronach, tveimur börnum hennar, auk Alan Ossip, framkvæmdastjóra fjölskyldufyrirtækisins Stronach Group, og fleirum.

Í yfirlýsingu frá auðjöfrinum og konu hans, Elfriede, segir að þau harmi að þurfa að grípa til aðgerða gegn fjölskyldu sinni. Það hafi einungis verið gert eftir að ljóst varð að tilraunir þeirra til sátta báru ekki árangur.

Hver er Frank Stronach?

Stronach er 86 ára gamall og fæddist í Austurríki, en fluttist svo til Kanada og stofnaði þar fyrirtæki sitt, Magna International, í bílskúr í Toronto. Fyrirtækið varð svo að alþjóðlegu stórfyrirtæki og hann sjálfur auðgaðist gríðarlega.

Seinna hélt svo Stronach innreið í heim hestaveðhlaupa og þá stofnaði hann fyrirtækið Stronach Group, sem dóttir hans Belinda stýrir nú. Fyrirtækið stýrir veðhlaupavöllum víða í Ameríku.

Síðar á ævinni hélt hann til Austurríkis á ný, þar sem hann tók um skeið þátt í stjórnmálum og stofnaði nýjan flokk sem var ætlað að berjast fyrir lægri sköttum og gegn aðild landsins að evrusvæðinu. Árið 2012 var hann sakaður um að kaupa þingmenn yfir í flokkinn. Flokkurinn, Team Stronach, var lagður niður árið 2017.

Segir ásakanir föður síns úr lausu lofti gripnar

Belinda Stronach er forseti ættarfyrirtækisins Stronach Group og fyrrverandi þingmaður í Kanada. Hún sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla að það væri krefjandi þegar fjölskyldumál og viðskipti blönduðust saman.

„Börnin mín og ég elska pabba. Hins vegar eru ásakanir hans ósannar og við munum svara kröfum hans með formlegum hætti fyrir dómstólum,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert