Þjóðarleiðtogar funda um framtíð Sýrlands

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Valdimír Pútín, forseti Rússlands, við …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Valdimír Pútín, forseti Rússlands, við upphaf fundarins í Istanbúl í morgun. AFP

Þjóðarleiðtogar Tyrklands, Rússlands, Þýskalands og Frakklands komu saman á fundi í Istanbúl í Tyrklandi í morgun þar sem unnið er að því að leita leiða til að binda enda á átök í Sýrlandi sem hafa staðið yfir í sjö ár.

„Augu allrar heimsbyggðarinnar eru á okkur í dag. Ég er þess fullviss að okkur mun takast að uppfylla væntingar þeirra,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, við upphaf fundarins í morgun.

Samið var um vopnahlé í september og hafa Rússar, sem styðja stjórnarherinn í Sýrlandi, samþykkt að koma á hlutlausu svæði umhverfis Idlib-hérað, sem er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna. Átök hafa hins vegar færst í aukana á þessu svæði í aðdraganda leiðtogafundarins og í gær létu sjö almennir borgarar lífið í árásum sýrlenska stjórnarhersins.

Fundurinn er sá fyrsti þar sem leiðtogar Tyrklands og Rússlands funda ásamt leiðtogum Þýskalands og Frakklands, tveggja stærstu ríkja Evrópusambandsins, um framtíð Sýrlands. Vonir eru bundnar við að fundurinn skili árangri og niðurstaða hans verði áætlun sem mun koma á friði í Sýrlandi.

Fundurinn er sá fyrsti þar sem leiðtogar Tyrklands og Rússlands …
Fundurinn er sá fyrsti þar sem leiðtogar Tyrklands og Rússlands funda ásamt leiðtogum Þýskalands og Frakklands, tveggja stærstu ríkja Evrópusambandsins, um framtíð Sýrlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert