Fylgistap Angelu Merkel að falli

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur staðfest að hún muni ekki …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur staðfest að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri og hættir 2021. AFP

„Ég mun ekki sækjast eftir pólitísku embætti þegar kjörtímabilinu lýkur,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, samkvæmt BBC á blaðamannafundi í Berlín í dag. Þar með hefur hún staðfest að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri þegar kjörtímabilinu lýkur 2021.

Yfirlýsing Merkel er tengd við slæmt gengi hægriflokks hennar, Sambandsflokks kristilegra demókrata (CDU), í Hesse. Bæði flokkur Merkel og samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn, flokkur jafnaðarmanna, töpuðu tíu prósentustigum í kosningunum í Hesse í gær.

Fylgistapið í Hesse er aðeins síðasta dæmið í röð kosninga þar sem flokkur hennar hefur tapað fylgi og sagðist Merkel í dag bera ábyrgð á slæmu gengi flokksins. Þá fullyrti hún að hún myndi ekki hafa nein afskipti þegar kemur að vali á arftaka hennar.

Merkel hlaut kjör formanns í Sambandsflokki kristilegra demókrata (CDU) árið 2000 og varð kanslari 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina