Hafa fundið fleiri líkamsleifar

Persónulegir munir sem fundist hafa rannsakaðir af sérfræðingum.
Persónulegir munir sem fundist hafa rannsakaðir af sérfræðingum. AFP

Björgunarsveitir hafa fundið fleiri líkamsleifar á staðnum þar sem farþegaþota indónesíska lággjaldaflugfélagsins Lion Air hrapaði í hafið aðfaranótt mánudagsins að íslenskum tíma með 189 manns um borð. Tugir kafara hafa tekið þátt í björgunaraðgerðunum.

Fram kemur í frétt AFP að björgunarsveitarfólk hafi fyllt fjölda líkpoka af líkamsleifum og verða leifarnar fluttar til Jakarta, höfuðborgar Indónesíu, þar sem borin verða kennsl á þær. Meðal annars hafa fundist líkamsleifar barns en þrjú börn voru um borð í þotunni.

Töluvert af braki úr farþegaþotunni hefur einnig fundist sem og persónulegar eigur eins og skór, fatnaður og veski. Haft er eftir yfirmanni björgunarsveitanna að öllu sem hafi fundist á yfirborði hafsins hafi verið safnað saman. Verið sé að leita að þotunni sjálfri.

Skór sem talið er að hafi tilheyrt einum farþeganum.
Skór sem talið er að hafi tilheyrt einum farþeganum. AFP

Björgunarsveitir gera ekki ráð fyrir að finna neinn á lífi. Líkamsleifarnar sem fundist hafi bendi til þess að farþegaþotan hafi skollið mjög harkalega niður í hafið en talið er að flak hennar liggi á um 30-40 metra dýpi út af strönd indónesísku eyjarinnar Java.

Fimm herskip, sem búin eru búnaði til þess að greina málm undir yfirborði sjávar, taka þátt í leitinni að farþegaþotunni og flugritum hennar. Þotan var á leið til indónesísku borgarinnar Pangkal Pinang og hafði verið 13 mínútur á lofti þegar samband rofnaði við hana.

Flugstjórinn hafði skömmu áður óskað eftir heimild til þess að snúa aftur til flugvallarins í Jakarta. Farþegaþotan var tekin í notkun í ágúst en gert var við vélarbilun í henni skömmu fyrir flugferðina. Hugsanlegt er þó talið að ekki hafi tekist að laga hana að fullu.

Ættingjar bíða frétta af ástvinum sínum.
Ættingjar bíða frétta af ástvinum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert