Lygamælar á landamærum hjávísindi

Landamæri Ungverjalands. Tækni sem greinir fínhreyfingar í andliti fólks er …
Landamæri Ungverjalands. Tækni sem greinir fínhreyfingar í andliti fólks er nú í prófunum í Ungverjalandi, Grikklandi og Lettlandi og er tækninni ætlað að sigta út þá sem leita hælis á fölskum forsendum á þeim landamærasvæðum sem mest mæðir á. Mynd úr safni. AFP

Svonefndir „lygamælar“, tækni sem greinir fínhreyfingar í andliti fólks, er nú í prófunum í Ungverjalandi, Grikklandi og Lettlandi og er tækninni ætlað að sigta út þá sem leita hælis á fölskum forsendum, á þeim landamærasvæðum sem mest mæðir á.

Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið og segir Evrópusambandið hafa hlotið töluverða gagnrýni fyrir að hampa slíkum hjávísindum.

„Lygamælarnir“ fela í sér notkun á teiknimyndaútgáfu af landamæraverði sem er sniðin að kyni og uppruna ferðalangsins og sem spyr spurningar á tungumáli viðkomandi í gegnum vefmyndavél. Kerfinu er falið að greina litlar breytingar í andliti þess sem vill komast inn á svæði ESB og á það að geta greint hvort viðkomandi fari með rétt mál varðandi eigin uppruna og fyrirætlanir.

Þá verða þeir sem vilja komast í gegnum landamæraeftirlitið að hlaða inn í kerfið passamynd, vegabréfsáritun og staðfestingu á eigin fjárhagsstöðu.

„Einstök nálgun til að greina blekkingar“ 

Samkvæmt grein sem leiðtogaráð Evrópusambandsins birti þá er þetta „einstök nálgun til að greina blekkingar með því að rannsaka fín tjáningu í andliti ferðalanga til að komast að því hvort að viðkomandi sé að ljúga.“

George Boultadakis, sem vinnur fyrir European Dynamics í Lúxemborg og sem fer fyrir verkefninu, segir það byggja á samblandi nýrrar tækni og eldri tækni sem reynsla sé komin af. Kerfið safni gögnum sem geri meiri en að greina lífkenni, heldur farið það yfir í greina merki í andlitstjáningu um blekkingu og að með því eigi það að auka skilvirkni og nákvæmni í starfi landamæravarða.

Þeir sem tækið telur nokkuð örugga komast í gegn með stuttri skoðun á upplýsingunum sem þeir skiluðu inn, en þeir sem meiri óvissa ríkir um eru látnir undirgangast nákvæmari skoðun.

Myndir sem kerfið tekur af viðkomandi eru þá bornar saman við passamyndir og aðrar myndir sem kunna að hafa verið teknar af viðkomandi við fyrri ferðir yfir landamærin. Þá verða fingraför skönnuð, sem og æðaför í lófum. Þegar kerfið hefur svo lagt mat á þessar upplýsingar tekur landamæravörður við.

Ímynd alls þess sem getur farið úrskeiðis

4,5 milljónir evra hafa þegar verið lagðar í verkefnið, sem að sögn Guardian hefur hlotið mikla gagnrýni hjá sérfræðingum.

Bruno Verschuere, fyrirlesari í réttarsálfræði við Amsterdam-háskóla, sagði í samtali við hollenska dagblaðið De Volskrant að hann hann teldi kerfið ekki gefa réttláta útkomu.

Fíntjáningar án orða segja í raun ekkert um það hvort að einhver er að ljúga eða ekki,“ sagði hann. „Þetta er ímynd alls þess sem getur farið úrskeiðis við lygamæla. Það er enginn vísindalegur grundvöllur fyrir aðferðunum sem á að fara að nota.“ Engar sannanir séu fyrir þeirri fullyrðingu að lygarar séu stressaðir og að það leiði til fínhreyfinga í andliti eða eirðarleysis.

Sagði Verschuere að þegar kerfið væri einu sinni komið í notkun þá hverfi það ekki. „Almenningur mun fá að heyra sögur af því sem gekk vel, en ekki sögur af þeim sem voru ranglega stöðvaðir.“

Bennett Kleinberg, aðstoðarprófessor í gagnavísindum við University College London, segir búnaðinn geta leitt til hjávísinda við landamæraeftirlit.

Guardian segir sambærilega tækni vera í þróun í Bandaríkjunum og að í síðasta mánuði hafi háskólinn í Arizona greint frá því að búið sé að þróa búnað sem vonast er til að koma í notkun á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert