Sögulegar niðurstöður fyrir margar sakir

Konur voru áberandi í þingkosningunum í Bandaríkjunum og ljóst er …
Konur voru áberandi í þingkosningunum í Bandaríkjunum og ljóst er að metfjöldi kvenna mun taka sæti á þingi á komandi kjörtímabili. AFP

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fóru í nótt eru sögulegar fyrir margar sakir og í raun var vitað fyrir fram að kosningarnar færu í sögubækurnar. Aldrei hafa fleiri konur og hinsegin fólk verið í framboði og áhugi á kosningum á miðju kjörtímabili forseta hefur sjaldan verið meiri, sem sýndi sig í kjörsókninni, sem var um 50% og er sú besta í áratugi.

Helstu niðurstöður kosninganna eru að sjálfsögðu þær að demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeildinni en repúblikanar styrktu stöðu sína í öldungadeildinni.

Ef rýnt er nánar í niðurstöðurnar má hins vegar finna margt merkilegt. Í aðdraganda kosninganna höfðu demókratar marg­ir hverj­ir búið sig und­ir svo­kallaða bláa bylgju, þar sem flokk­ur­inn myndi ná fjölda sæta á þing­inu og góðum meiri­hluta. Það tókst, í fulltrúadeildinni, en ef nánar er að gáð mætti segja að um regnbogabyltingu sé að ræða, frekar en bláa bylgju, í ljósi fjölda kvenna og fulltrúa minnihlutahópa sem náðu kjöri.

Ár konunnar

Fyrir kosningarnar töluðu fjöl­miðlar vest­an­hafs um að árið 2018 yrði ár kon­unn­ar en 256 kon­ur voru á kjör­seðlin­um, 234 sóttust eft­ir þing­sæti í full­trúa­deild­inni og 22 eft­ir sæti í öld­unga­deild­inni. Árið 1992 var einnig nefnt ár kon­unn­ar í Banda­ríkj­un­um, þegar fjöldi kvenna fór í fram­boð í kjöl­far framb­urðar Anitu Hill um kyn­ferðis­lega áreitni fyr­ir fram­an dóm­ara­nefnd öld­unga­deild­ar­inn­ar. Heitið var svo sannarlega réttnefni þar sem fjöldi kvenna á þingi tvöfaldaðist það ár.

Ekki hafa öll atkvæði verið talin í kosningunum en ljóst er að konum á þingi fjölgar og verða þær fleiri en 107, sem var heildartala kvenna á þingi á síðasta kjörtímabili.

Meðal kvenna sem munu taka sæti á þingi eru Alexandria Ocasio-Cortez og Abby Finkenauer, sem eiga það sameiginlegt að vera demókratar auk þess sem þeir verða yngstu konurnar sem  taka sæti í fulltrúadeildinni í sögu Bandaríkjanna, en þær eru báðar 29 ára. Ocasio-Cortez hafði betur gegn repúblikananum Anthony Pappas í New York-ríki og Finkenauer sigraði Rob Blum, sitjandi þingmann fyrir Iowa.

Alexandria Ocasio-Cortez er yngsta þinkonan sem tekur sæti í fulltrúadeild …
Alexandria Ocasio-Cortez er yngsta þinkonan sem tekur sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AFP

Samkynhneigð MMA-bragadakona af frumbyggjaættum

Sharice Dav­ids mun taka sæti í fulltrúadeildinni fyrir Kansas. Sigur Davids er merkilegur að mörgu leyti. Hún er 38 ára, frumbyggi og samkynheigð. Hún starfar sem lögmaður og er einnig fyrr­ver­andi MMA-bar­daga­kona.

Auk henn­ar var Deb Haaland kjör­in á þing fyr­ir demó­krata en þær tvær eru fyrstu frum­byggja­kon­urn­ar sem kjörn­ar eru á þing í Banda­ríkj­un­um.

Þá eru demókratarnir Rashida Tlaib frá Michigan og Ilhan Omar frá Minnesota fyrstu konurnar sem eru múslimar sem ná kjöri í fulltrúadeildinni. Omar flúði borgarastyrjöldina í Sómalíu þegar hún var átta ára og dvaldi í fjögur ár í flóttamannabúðum í Kenýa áður en hún kom til Bandaríkjanna.

Í Texas náðu tvær konur af suður-amerískum uppruna kjöri, þær fyrstu í ríkinu. „Það er kominn tími til,“ segir Sylvia Garcia, önnur þingkonan. „En þetta snýst ekki um að vera fyrstur, þetta snýst um að vera bestur.“ Ásamt henni mun Veronica Escobar taka sæti í fulltrúadeildinni fyrir Texas.

Sharice Dav­ids mun taka sæti í fulltrúadeildinni fyrir Kansas.
Sharice Dav­ids mun taka sæti í fulltrúadeildinni fyrir Kansas. AFP

Fyrsti samkynhneigði ríkisstjórinn

Demókratinn Jared Polis var kjörinn ríkisstjóri í Colorado og er hann fyrsti samkynhneigði maðurinn sem hefur verið kjörinn í embætti ríkisstjóra.

Þá var demókratinn Janet Mills kjörinn ríkisstjóri Maine og er hún fyrsta konan sem gegnir því embætti. Hún tekur við keflinu af repúblikananum Paul LePage, sem hefur verið afar umdeildur fyrir ummæli sín sem ýta undir kynþáttafordóma.

Jared Polis var kjörinn ríkisstjóri í Colorado og er hann …
Jared Polis var kjörinn ríkisstjóri í Colorado og er hann fyrsti samkynhneigði karlinn sem mun gegna embættinu. AFP

Kjörsókn sem skipti sköpum 

Fjölmörg met féllu hvað varðar kjörsókn í þingkosningunum. Aldrei hafa fleiri greitt atkvæði utankjörfundar, eða 35 millj­ón­ir manns, sam­an­borið við um 20 millj­ón­ir á sama tíma árið 2014. 

Opinberar tölur um kjörsókn hafa ekki verið staðfestar en New York Times metur það svo að um 114 milljón manns hafi greitt atkvæði, samanborið við um 83 milljónir fyrir fjórum árum. 

Langar raðið mynduðust við kjörstaði í gær, enda kjörsókn með …
Langar raðið mynduðust við kjörstaði í gær, enda kjörsókn með besta móti um nánast allt land. AFP

Byggt á umfjöllunum: 

New York Times

BBC

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert