Vill ekki heyra upptökuna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa fengið allar nauðsynlegar upplýsingar um efni hljóðupptökunnar af morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Hann vilji þó ekki heyra hana með eigin eyrum.

„Því að þetta er upptaka af þjáningu. Þetta er hræðileg upptaka,“ sagði forsetinn í viðtali sem birt var í þætti sjónvarpsstöðvarinnar Fox í dag.

„Hún var mjög ofbeldisfull, mjög grimmileg og hræðileg,“ bætti hann við.

„Hver getur í raun vitað það?“

Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, mun hafa komist að þeirri niðurstöðu að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed Bin Salman, fyrirskipaði launmorðið á Khashoggi á ræðismannsskrifstofu ríkisins í Istanbúl í byrjun október.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur kallað niðurstöðurnar ónákvæmar og Trump sagði í gær að stjórnvöld myndu gefa út mjög yfirgripsmikla skýrslu um málið sem fyrst, jafnvel á mánudag.

Spurður hvort krónprinsinn hafi logið að forsetanum, þegar hann þvertók fyrir að hafa haft nokkuð með morðið að gera, sagðist Trump ekki vita það. „Hver getur í raun vitað það? En ég get sagt þetta; hann er með fjölda fólks [...] sem segir að hann hafi enga vitneskju haft.“

Frá minningarathöfn um Khashoggi fyrr í mánuðinum.
Frá minningarathöfn um Khashoggi fyrr í mánuðinum. AFP

Þurfi tvo til að dansa tangó

Trump viðurkenndi að fólk sem stendur prinsinum nærri hafi líklega átt þátt í málinu, en bætti við: „Ég vil halda tryggð við bandamann sem að mörgu leyti hefur verið mjög góður.“

Spurður hvort hann muni fylgja hreyfingum í bandaríska þinginu, í þá átt að binda enda á hlut Bandaríkjanna í stríðinu í Jemen, eða hætta sölu vopna til Sádi-Arabíu, sagði Trump:

„Ég vil sjá Jemen enda. Það þarf tvo til að dansa tangó og Íran þarf líka að enda. Ég vil að Sádarnir stoppi en ég vil að Íran stoppi líka.“

Bandaríkin hafa kallað eftir vopnahléi og friðarviðræðum til að binda enda á deilurnar, sem varað hafa í þrjú ár, á sama tíma og sífellt fleiri mótmæla miklum fjölda dauðsfalla af völdum loftárása í Jemen. 

mbl.is
Greinakurlarar
Eigum til 15 hp greinakurlara með bensínmótor. Taka allt að 100mm greinar. Upp...
Málun bílastæða
Vertíðin hafin leitið tilboða: S: 551 4000 - verktak@verktak.is eða á http...
Vetur í Tungunum, Eyjasól ehf.
Nú er að skella sér í sumarbústað um helgina og eða næstu... Rúm fyrir 5-6. Tak...
Dunlop Enasave Ec300
4 ný og ónotuð Dunlop Enasave Ec300 sumardekk til sölu. 215/50R17 Verð 40 þús...