Íhuga að setja á herlög í Úkraínu

Petro Porósj­en­kó Úkraínuforseti vill að þingheimur samþykki herlög til næstu …
Petro Porósj­en­kó Úkraínuforseti vill að þingheimur samþykki herlög til næstu 30 daga. AFP

Úkraínska þingið er nú með til skoðunar að leggja á herlög í landinu eftir að Rúss­ar her­tóku þrjú úkraínsk her­skip skammt frá Krímskag­an­um um helg­ina.

Beittu Rúss­ar vopn­um gegn úkraínsku her­skip­un­um og hafa sakað áhafn­ir þeirra um að hafa farið inn í rúss­neska land­helgi án heim­ild­ar og óttast margir að þetta þýði auk­in hernaðar­um­svif á þess­um slóðum.

Sagði Petro Porósj­en­kó Úkraínuforseti í dag að hann ætli að leggja til að þingið samþykki að herlögum verði komið á til næstu 30 daga og segir BBC það vera helmingi styttri tíma en öryggis- og varnarmálanefnd þingsins mælti með í gær.

Sagði Porósj­en­kó í sjónvarpsávarpi að hann vilji ekki að herlög hafi áhrif á forsetakosningar sem fara eiga fram í landinu í lok mars á næsta ári, en að verði herlög samþykkt þá muni þau taka gildi á miðvikudagsmorgun.

Örygg­is­ráð Sam­einuðu þjóðanna boðaði til neyðar­fundar vegna málsins í dag, en engin niðurstaða lá fyrir að fundi loknum. Málið hefur einnig ratað á borð Atlants­hafs­banda­lagsins sem einnig boðaði til neyðar­fund­ar í höfuðstöðvum sín­um í Brus­sel. 

Úkraínsk yf­ir­völd segja að sex her­menn hafi særst við yfirtöku herskipanna, þar af tveir al­var­lega, en rússneska leyniþjónustan FSB seg­ir að þrír her­menn hafi særst og eng­inn þeirra sé í líf­hættu.

Aðgerðum Rússa var mót­mælt í Kænug­arði í gær­kvöldi og safnaðist hóp­ur sam­an fyr­ir utan sendi­ráð Rússa í borg­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert