Seldi húsið og opnaði dýraathvarf

Salima Kadoui, Sally, ásamt tveimur hundum í athvarfinu.
Salima Kadoui, Sally, ásamt tveimur hundum í athvarfinu.

Bresk kona gjörbreytti um stefnu í lífinu er hún settist að í Marokkó þar sem hún kom á fót dýraathvarfi. Þar hefur yfir 500 hundum verið gefið tækifæri til betra lífs eftir að hafa eytt mánuðum og jafnvel árum á flækingi.

Sally Kadoui er af breskum og marokkóskum ættum. Hún hafði búið í Bretlandi í mörg ár en snéri aftur til Marokkó til að sinna veikum föður sínum árið 2012. Faðir hennar, sem var mjög mikill dýravinur, lést af völdum Alzheimer nokkru síðar, 72 ára að aldri.

Kadoui hafði þá áttað sig á þeim mikla vanda sem hundar eru í í Marokkó og hvernig komið er fram við þá. Hún seldi því heimili sitt í Cambridge til að fjármagna athvarf sem hún svo opnaði árið 2013. Með þessu vildi hún einnig heiðra minningu föður síns.

„Ég gaf allt upp á bátinn til að stofna athvarfið,“ segir Kadoui í nýlegu viðtali við dýrasíðuna The Dodo. Hún leiðréttir svo þegar í stað þessi orð sín og segir: „Nei, ég fékk allt þegar ég opnaði það.“

Öll dýr sem eiga undir högg að sækja eru velkomin í athvarfið. Þar dvelja oft á þriðja hundrað hundar og yfir 100 kettir. Reynt er að finna þeim framtíðarheimili, jafnvel utan landssteinanna. Í athvarfinu, sem er á stórri landareign skammt frá Tangier, búa einnig geitur, kjúklingar, kindur, múlasnar og uglur, svo dæmi séu tekin.

Þúsundir flækingshunda eru á götum Tangier að sögn Kadoui. Hún segir viðhorf yfirvalda í garð þessara dýra skelfilegt og að því þurfi að breyta. Hún vilji fræða fólk, aðallega ungt fólk, um dýr og að þau hafi tilfinningar og finni fyrir sársauka líkt og mannskepnan.

Í athvarfinu fá hundarnir og kettirnir bólusetningar og læknishjálp. Leitað er styrkja fyrir einstök dýr en einnig fyrir athvarfið almennt.

Dýrin eru mjög hrifin af Kadoui sem þekkir þau öll með nafni. 

Heimasíða dýraathvarfsins

Facebook-síða athvarfsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert