Þrír farast í óveðri í Bandaríkjunum

Víða urðu árekstrar og bílar fóru út af vegum vegna …
Víða urðu árekstrar og bílar fóru út af vegum vegna snjókomu, slyddu eða ísrigningar. AFP

Þrír hið minnsta hafa farist í farist í óveðri og mikilli ofankomu í Suðausturríkjum Bandaríkjanna undanfarna daga og hundruð þúsunda eru nú án rafmagns.

BBC segir neyðarástandi hafa verið lýst yfir í Norður-Karólínuríki, en allt að hálfs metra djúpur snjór féll þar á sumum stöðum yfir helgina.

Einn maður lést er tré féll á bíl hans og leit stendur nú yfir að öðrum bílstjóra eftir að bíll hans fannst úti í á.

Þúsundum flugferða var aflýst á svæðinu, en áfram má búast við snjókomu, slyddu og ísrigningu.

Ray Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínuríkis, sagði á fundi með fréttamönnum í gær að „ársbirgðir af snjó hefðu fallið á sumum stöðum á einum degi“.

Í Karolíunuríkjunum, Alabama, Tennessee og Georgíuríki voru rúmlega 300.000 manns án rafmagns á sunnudag og stormviðvörun var enn í gildi á sumum stöðum í ríkjunum, sérstaklega í Norður-Karólínu og Virginíu. Þá var tilkynnt um tæplega 60 árekstra í Virginíuríki af völdum veðursins.

Bandaríska veðurstofan varaði við að þetta „hættulega veðrakerfi“ yrði áfram á ferðinni. Varaði hún við áframhaldandi ísrigningu og sagði Cooper vegi áfram geta breyst í „skautasvell“ jafnvel þó að stormurinn yrði farinn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert