Trump hótar að lama stjórnsýsluna

Trump segist munu lama stjórnsýsluna ef hann fær ekki vilja …
Trump segist munu lama stjórnsýsluna ef hann fær ekki vilja sínum framgengt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði að lama bandarísku stjórnsýsluna ef ekki verður brugðist við óskum hans um að fjármagna múr við landamæri Bandaríkjanna í suðri. Hann og Nancy Pelosi, leiðtogi minnihluta þingsins, deildu um málið á opnum fundi á skrifstofu forsetans.

Demókratar taka við meirihluta fulltrúadeildarinnar í janúar og Trump vill hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd hið fyrsta. Það er þó ljóst að hann hefur ekki meirihlutann sem til þarf til þess að fjármagna byggingu múrsins.

„Ef við náum ekki fram vilja okkar á einn hátt eða annan,“ sagði Trump, „mun ég loka á störf ríkisstjórnarinnar.“ Pelosi þvertók fyrir að Trump tækist að ná kosningu um að reisa múr við landamærin, sama hvað hann reyndi. Þá hótaði hann þessu, að sögn New York Times.

Að lama stjórnsýsluna á þennan hátt er nokkuð sem hægt er að beita sem pólitísku bragði vestanhafs en þá eru einfaldlega heilu deildir stjórnsýslunnar lagðar niður tímabundið, uns þingið nær að komast að niðurstöðu um fjárhagsáætlanir ýmsar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert