Grönduðu 62 vígamönnum um helgina

Hershöfðinginn Roger Cloutier stjórnar herliði Bandaríkjahers í Afríku. Myndin er …
Hershöfðinginn Roger Cloutier stjórnar herliði Bandaríkjahers í Afríku. Myndin er tekin í Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, á dögunum. AFP

Bandaríkjaher drap 62 vígamenn íslömsku hryðjuverkasamtakanna al-Shabab í sex loftárásum í Sómalíu um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu Bandaríkjahers, sem erlendir miðlar hafa fjallað um í dag.

Samkvæmt tilkynningunni voru fjórar loftárásir gerðar á laugardag og í þeim létust alls 32 vígamenn. 28 létust svo í tveimur árásum til viðbótar á sunnudag. Bandaríkjaher segir að enginn óbreyttur borgari hafi látið lífið í árásunum sex.

BBC segir í frétt sinni um málið  að þetta séu mannskæðustu loftárásir Bandaríkjamanna í Sómalíu frá því í nóvember á síðasta ári, er Bandaríkjamenn sögðust hafa grandað 100 vígamönnum, en aðgerðum Bandaríkjamanna gegn vígamönnum í Sómalíu hefur fjölgað frá því að Donal Trump tók við forsetaembættinu í janúar í fyrra.

Bandaríkjamenn eru með stóra herstöð í grannríkinu Djibútí og þaðan er loftárásum þeirra stýrt, en loftárásirnar um helgina voru gerðar í samráði við stjórnvöld í Sómalíu og er þeim ætlað að sporna gegn liðsuppbyggingu al-Shabab, sem eru með tengsl við al-Qaeda-hryðjuverkasamtökin og hafa lýst sig ábyrg fyrir fjölda hryðjuverkaárása á almenna borgara innan landamæra Sómalíu á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert