Lokar Twitter-aðgangi vegna hótana

Í fyrstu ætluðu taí­lensk yf­ir­völd að vísa Rahaf úr landi …
Í fyrstu ætluðu taí­lensk yf­ir­völd að vísa Rahaf úr landi og senda til fjöl­skyld­unn­ar að nýju en vegna um­fjöll­un­ar, fyrst á sam­fé­lags­miðlum og svo fjöl­miðlum, var hætt við það á mánu­dags­morg­un. AFP

Rahaf Mohammed al-Qun­un, sem ótt­ast um líf sitt og flúði fjöl­skyldu sína í Kúveit um helg­ina, hefur lokað Twitter-aðgangi sínum vegna fjölda líflátshótana.

Qun­un, sem er 18 ára og frá Sádi-Ar­ab­íu, var stöðvuð á flugvellinum í Bangkok síðustu helgi og seg­ist hún vera í lífs­hættu á heim­ili sínu og þar sé hún beitt and­legu og lík­am­legu of­beldi.

Í fyrstu ætluðu taí­lensk yf­ir­völd að vísa henni úr landi og senda til fjöl­skyld­unn­ar að nýju en vegna um­fjöll­un­ar, fyrst á sam­fé­lags­miðlum og svo fjöl­miðlum, var hætt við það á mánu­dags­morg­un. Qun­un hef­ur, vopnuð snjallsíma og myllu­merki, leyft heim­in­um að fylgj­ast stöðugt með máli sínu.

Í síðustu færslunni sem birtist á Twitter-aðgangi hennar í dag, áður en honum var lokað, sagði Qunun að hún hefði bæði góðar og slæmar fréttir að færa. Fylgjendur hennar, sem eru orðnir yfir hundrað þúsund, fengu hins vegar aldrei að heyra fréttirnar.

„Rahaf hefur fengið líflátshótanir og þess vegna hefur hún lokað aðgangi sínum, vinsamlegast bjargið lífi hennar,“ segir Twitter-notandinn nourahfa313.

Aðstoðarfram­kvæmda­stjóri Mann­rétt­inda­vakt­ar­inn­ar í Asíu, Phil Roberts­son, staðfestir í samtali við AFP-fréttastofuna að Qunun hafi borist líflátshótanir og ítrekar hann að líflátshótunum sem berast í gegnum lýðnetið verði að taka alvarlega.

Boðið hæli í Ástralíu og Kanada

Í fyrradag staðfesti Flótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna að hún félli und­ir skil­grein­ingu SÞ á flótta­fólki og því beri aðild­ar­ríkj­um samn­ings­ins að veita henni vernd. Fréttastofa CNN hefur heimildir fyrir því að stjórnvöld í Canberra hafi samþykkt að veita Qunun hæli í Ástralíu. Þá hafa stjórnvöld í Kanada einnig boðið henni hæli en Qunun sagði í færslu á Twitter í vikunni að hana langaði helst að fara til Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert