Sendu bandarískum kollegum pítsur

Flugumferðarstjórar í Portland í Maine-ríki kunnu vel að meta pítsusendinguna.
Flugumferðarstjórar í Portland í Maine-ríki kunnu vel að meta pítsusendinguna. Ljósmynd/Facebook-síða flugumferðarstjóra í Portland

Kanadískir flugumferðarstjórar hafa sent pítsur í hundraðavís til kollega sinna í Bandaríkjunum, sem þurfa að mæta til vinnu þrátt fyrir að fá ekki greidd laun vegna lokana ríkisstofnana þar í landi.

BBC hefur eftir samtökum kanadískra flugumferðastjóra (CATCA) að eitthvað sem byrjað hafi sem einföld söfnun hjá nokkrum kanadískum flugumferðarstjórum hafi umbreyst yfir í samstöðuyfirlýsingu innan flugiðnaðarins.

Fjölmargar bandarískar ríkisstofnanir hafa nú verið lokaðar í 24 daga og hafa aldrei verið lokaðar jafn lengi og nú. Engin lausn virðist vera í sjónmáli, en lokanirnar hafa áhrif á 800.000 ríkisstarfsmenn sem ekki hafa fengið greidd laun á þeim tíma.

Eru flugumferðastjórar í hópi þeirra 450.000 ríkisstarfsmanna sem þurfa að mæta til vinnu þrátt fyrir launaleysið.

BBC segir að í gærkvöldi hafi kollegar þeirra í Kanada látið senda yfir 300 pítsur til 49 stjórnstöðva flugumferðar víðs vegar um Bandaríkin.

„Þetta var sannkölluð grasrótarhreyfing,“ segir Peter Duffy formaður CATCA. Frumkvæðið áttu nokkrir kanadískir flugumferðarstjórar sem vildu sýna kollegum sínum hinum megin landamæranna í Anchorage í Alaska að hugur þeirra væri hjá þeim.

„Þeir tala daglega við þá í gegnum símann og líta á þá sem samstarfsmenn, og sögðu bara „hey, sendum þeim nokkrar pítsur“, rifjar Duffy upp.

Frá því að fyrstu pítsurnar voru sendar hefur hlýhugurinn breitt úr sér um allt Kanada. „Einn gaf meira að segja 45.000 kr. og sagði „finnið eins marga staði og þið getið sem þurfa á pítsu að halda,“ segir hann og kveður Kanadamenn ætla að halda áfram að styðja bandaríska starfsbræður sína í að hvetja til þess að bundinn verði endir á lokanirnar hið fyrsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert