FBI aðstoðar við norsku mannránsrannsóknina

Bæði Interpol og Europol taka þátt í leitinni að Anne-Elisabeth …
Bæði Interpol og Europol taka þátt í leitinni að Anne-Elisabeth Hagen. Skjáskot/Interpol

Bandaríska alríkislögreglan FBI aðstoðar norsku lögregluna við rannsókn á ráninu á Anne-Elisabeth Hagen, sem ekkert hefur spurst til frá því í lok október í fyrra. Þetta staðfesti norska lögreglan í dag.

„Það stemmir. FBI hefur tekið þátt í rannsókn okkar á málinu. Það er eðlilegt í máli eins og þessu, en við getum ekki greint nánar frá því í hverju sú aðstoð er fólgin, hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Christian Berge, einum yfirmanna lögreglunnar.

Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth Hagen frá því  31. október í fyrra og er síðasta lífsmark sem barst frá henni símtal við ættingja klukkan 9.14 þann morgun.

Málið er rannsakað sem mannrán og telur lögregla að Hagen hafi verið rænt, en krafa um lausnargjald og hótun um að henni verði unnið mein sé lausnargjaldið ekki greitt var skilin eftir á heimilinu.

Lög­reglu hafa borist tæp­lega þúsund ábend­ing­ar um ein­stak­linga, mögu­lega staði þar sem mann­ræn­ingjarn­ir kunni að hafa Hagen í haldi og ýms­ar aðrar at­huga­semd­ir frá því tilkynnt var um mannránið.

Auk norskra lögregluyfirvalda og FBI taka bæði Europol og Interpol þátt í rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert