Matarlykt ekki Búllunni að falli

Tommi's Burger Joint í Ósló sigraði fyrir dómi. Leigusala var …
Tommi's Burger Joint í Ósló sigraði fyrir dómi. Leigusala var óheimilt að rifta leigusamningi vegna matarlyktar. mbl.is/Baldur

Nágrannar Hamborgarabúllu Tómasar í Thorvald Meyersgötu 40 í Ósló kvörtuðu undan lyktarmengun frá veitingastaðnum og töldu að bæta þyrfti fráblástur til þess að hann gæti starfað áfram. Málið fór fyrir Héraðsdóm Óslóar, en þar hafði Hamborgarabúllan betur, að því er segir í Vårt Oslo.

Búllan, Tommi's Bruger Joint, opnaði á þessum stað 9. júní 2017 og byrjuðu kvartanir að berast þremur dögum síðar. Íbúar í byggingunni sem búa fyrir ofan og í kringum veitingastaðinn töldu mikla steikingarbrælu og matarlykt berast vegna starfsemi Búllunnar.

Sýslumaður hafnaði útburði

Leigusalinn, Løkka Handelskompagni, sendi Hamborgarabúllunni bréf 12. júní þar sem bent var á að mögulega væri leigutaki brotlegur gagnvart ákvæðum leigusamnings. Nágrannarnir kröfðu leigusala í bréfi um að skipa veitngastaðnum að koma upp bættu loftræstikerfi.

Mánuði eftir opnun veitingastaðarins kviknar minni háttar eldur á veitingastaðnum og krafðist leigusali stöðvunar rekstrar veitingastaðarins. Hamborgarabúllan hélt hins vegar áfram rekstri og hóf samræður við leigusala um nýtt loftræstikerfi.

Løkka Handelskompagni krefst riftunar leigusamnings frá 14. september 2017 og í febrúar 2018 fer leigusalinn fram á við sýslumann að leigutaki verði borinn út. Sýslumaður segist hins vegar ekki geta hafið útburð nema að uppfylltum skilyrðum og ákveður þá leigusalinn að kæra Hamborgarabúlluna.

Gert að greiða 2,4 milljónir

Héraðsdómur Óslóar komst að þeirri niðurstöðu að leigusali gæti ekki á grundvelli steikingar- og matarlyktar virkjað riftunarákvæði leigusamningsins þar sem honum ætti að vera ljóst þegar samningurinn var gerður að slík lykt myndi fylgja veitingastarfsemi þar sem grill og steikingar væri viðhaft.

Jafnframt segir að það sé ekki á ábyrgð leigutaka að tryggja að loftræstikerfi og fráblástur uppfylli opinberar kröfur. Einnig liggja ekki fyrir nein gögn sem sýna að slíkar kröfur séu ekki uppfylltar af því kerfi sem er í notkun.

Løkka Handelskompagni var gert að greiða Hamborgarabúllu Tómasar 174.200 norskar krónur vegna málskostnaðar, andvirði 2,4 milljóna íslenskra króna.

mbl.is