Hafa fengið skilaboð frá mannræningjunum

Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. Ekkert hefur til hennar spurst frá því …
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. Ekkert hefur til hennar spurst frá því í lok október á síðasta ári. AFP

Fjölskyldu Anne-Elisabeth Hagen, sem talið er að rænt hafi verið af heimili sínu í lok október, bárust í síðustu viku skilaboð frá þeim sem segjast vera með hana í haldi.

Norska ríkisútvarpið NRK segir Svein Holden, lögmann Hagen-fjölskyldunnar, hafa greint frá þessu á fundi með fjölmiðlum í dag, en hann segir fyrirspurn hafa borist frá hinum meintu ræningjum 16. janúar.

„Við höfum skoðað þessi skilaboð vandlega með lögreglu og urðum sammála um að það sé rétt að greina fjölmiðlum frá þessu.“

Sagði Holden að skilaboðin hefðu borist á sama stafræna hátt og fyrri skilaboð sem fjölskyldan hefur fengið og miðillinn sem ræningjarnir noti bjóði upp á mjög takmörkuð samskipti.

„Skilaboðin sem við fengum voru ekki ekki sönnun þess að hún væri á lífi, eða að sendandinn væri með Anne Elisabeth Hagen í haldi í dag. Við lítum þó svo á að þetta sé jákvætt merki þess að hún sé enn á lífi,“ sagði Holden sem ekki vildi tjá sig nánar um innihald skilaboðanna.

Hagen er gift einum ríkasta manni Noregs og hefur fjölskyldan áður greint frá því í gegnum lögfræðing sinn að hún vilji finna lausn á málinu.

Tilgangurinn að koma á samskiptum við ræningjana

Sagði Holden fjölskylduna leyfa sér að vera bjartsýna að fá Hagen aftur, en fyrst verði að koma á samskiptum við ræningjana. „Tilgangur fjölmiðlafundarins í dag er að komast í samband við ræningjana,“ sagði hann og gerði grein fyrir máli sínu á bæði norsku og ensku. Holden vildi þó ekki tjá sig um það hvort þetta þýddi að gengið væri út frá því að ræningjarnir væru annarrar þjóðar en norskir.

Mannræningjarnir hafa krafist þess að fá lausnargjaldið greitt í rafmynt og nemur krafa þeirra andvirði 1,2 milljarða íslenskra króna. Fjölskyldan neitar hins vegar að greiða nokkuð fái hún enga sönnun þess að Hagen sé enn á lífi.

Í gær hóf lögregla leit við Langvannet-stöðuvatnið, sem er í nágrenni heimilis fjölskyldunnar og segir NRK að sést hafi til kafara að störfum við vatnið. „Við tjáum okkur ekki um það hvort við höfum fundið einhverjar vísbendingar við leit okkar,“ sagði Anders Bru hjá norsku lögreglunni sem fór fyrir aðgerðunum í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert