„Ekki senda mig til Barein“

Hakeem al-Araibi á leið inn í réttarsalinn í morgun.
Hakeem al-Araibi á leið inn í réttarsalinn í morgun. AFP

Knattspyrnumaðurinn Hakeem al-Araibi, sem er flóttamaður frá Barein sem er búsettur í Ástralíu, var leiddur fyrir dómara í Bangkok í dag. Hann biður um að vera ekki sendur aftur til upprunalandsins en hann óttast að vera pyntaður eða drepinn verði hann sendur þangað.

Dómari úrskurðaði að al-Araibi verði áfram í haldi í tvo mánuði í Taílandi en hann var stöðvaður að beiðni yfirvalda í Barein á alþjóðaflugvellinum í Bangkok í nóvember. Hann hefur verið í haldi taílenskra yfirvalda síðan þá. 

Hakeem al-Araibi var dæmdur fyrir að hafa unnið skemmdir á lögreglustöð í Barein en hann var ekki viðstaddur réttarhöldin. Að eigin sögn var hann ekki einu sinni staddur í landinu þegar hann á að hafa unnið skemmdarverkið þar sem hann var með landsliðinu í útlöndum. 

Araibi segir ástæðuna fyrir því að hann er skotmark yfirvalda vera þá að hann hefur gagnrýnt Knattspyrnusamband Asíu (AFC) en forseti þess er sjeik Salman bin Ebrahim Al Khalifa, sem tilheyrir konungsfjölskyldunni í Barein. Þegar hann var handtekinn á flugvellinum í Taílandi var hann í brúðkaupsferðalagi. 

„Gerið það ekki senda mig til Barein,“ sagði hann þegar hann kom í réttarsalinn en félagar hans úr knattspyrnunni, fyrrverandi fyrirliði ástralska landsliðsins, Craig Foster, og fleiri voru þar til þess að styðja hann.

Foster kallaði til hans: „Eiginkona þín sendir þér ástarkveðjur Hakeem. Ástralía stendur með þér félagi.“ 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert