Lík ungrar konu fannst í ferðatösku

Valerie Reyes
Valerie Reyes Ljósmynd lögreglan

Nokkrum dögum áður en lík Valerie Reyes fannst í ferðatösku á víðavangi í Connecticut hafði hún hringt í móður sína skelfingu lostin. Hún óttaðist að einhver vildi drepa hana.

„Hún var mjög hrædd og skelfingu lostin,“ segir móðir hennar, Norma Sanchez, í viðtali við CNN.

Valerie Reyes, sem var 24 ára gömul, hafði búið í kjallaraíbúð í New Rochelle, New York, í einhvern tíma en hafði jafnframt óttast um líf sitt í einhvern tíma. Móðir hennar segir að hún hafi hins vegar aldrei nafngreint þann eða þá sem hún óttaðist.

Á þriðjudag fundu vegavinnumenn lík Reyes í rauðri ferðatösku í bænum Greenwich, Connecticut, sem er í rúmlega 20 km fjarlægð frá íbúð hennar. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn þriggja lögregluumdæma er ekkert vitað hver myrti ungu konuna.

Tilkynnt var um hvarf Reyes 29. janúar en þá höfðu hvorki fjölskylda né vinnufélagar hennar í bókabúð Barnes & Noble í Eastchester séð hana í einhverja daga. Síðast sást til hennar morguninn 29. janúar en þá var hún í grænum jakka, svörtum buxum og svörtum skóm. Hún glímdi bæði við kvíða og þunglyndi og tóku margir þátt í leitinni og dreifðu upplýsingum um hana á samfélagsmiðlum.

Að sögn lögreglu fannst lík hennar viku síðar bundið á höndum og fótum í töskunni í skóglendi skammt frá götunni í rólegu hverfi í Greenwich. Alls búa 63 þúsund manns í Greenwich en þar eru nokkur fjármálafyrirtæki til húsa.

Einn vegavinnumannanna sem fundu líkið hefur verið sendur í launalaust leyfi fyrir að hafa tekið myndir af líkinu og á vettvangi. Að sögn lögreglu er hegðun mannsins óafsakanleg. „Fórnarlambið var dóttir, systir og frænka fjölskyldu sem er þjökuð af sorg,“ sagði yfirmaður lögreglunnar.

mbl.is