Rússar hefja árásir að nýju

Liðsmenn Hvítu hjálmanna slökkva elda í Idlib-borg í kjölfar loftárása.
Liðsmenn Hvítu hjálmanna slökkva elda í Idlib-borg í kjölfar loftárása. AFP

Rússar hafa sent orrustuþotu til árása í Idlib-héraði í Sýrlandi. Er þetta fyrsta árásin sem Rússar gera í landinu mánuðum saman. Idlib-hérað er enn að mestu undir yfirráðum uppreisnarmanna, það síðasta sem þannig háttar til í. Um þrjár milljónir manna búa í héraðinu og grípi Sýrlandsher með aðstoð Rússa þar til stórsóknar er ljóst að hundruð þúsund manna munu leggja á flótta. Þegar hafa um fjórar milljónir Sýrlendinga flúið landið, flestir til nágrannaríkjanna Tyrklands, Jórdaníu og Líbanon.

Uppreisnarhópar, sem hraktir hafa verið frá öðrum stöðum í landinu, m.a. Homs og Aleppo, hafa safnast saman í Idlib á síðustu mánuðum. Í september náðu Tyrkir að sannfæra Rússa um að gera ekki stórkostlegt áhlaup á Idlib þar sem verið væri að reyna að aðgreina vígamenn í héraðinu frá almennum borgurum. Nú virðist sem þolinmæði Rússa sé á þrotum, segir í frétt Guardian um málið.

Þar er einnig rifjað upp að Rússar hafi áður gert árásir á meðan leiðtogar vesturveldanna setjast niður til að ræða stöðuna í Sýrlandi. Þriggja daga ráðstefna er nú hafin í Brussel þar sem rætt verður m.a. hvernig Vesturlönd geta stutt við bakið á stjórnvöldum í Tyrklandi, Jórdaníu og Líbanon sem hafa borið hitann og þungan af flótta Sýrlendinga frá heimalandi sínu. Þá er einnig á dagskránni að ræða þá tillögu að engum sýrlenskum flóttamanni verði gert að fara aftur til Sýrlands gegn vilja sínum. 

Íbúar í Idlib-héraði segja að rússnesk orrustuflugvél hafi gert að minnsta kosti tólf loftárásir á íbúahverfi. Að minnsta kosti tíu almennir borgarar hafi fallið og 45 særst. Yfir 100 almennir borgarar hafa fallið frá byrjun árs.

Átta ár eru liðin frá því að stríðið í Sýrlandi braust út. Meira en 360 þúsund manns hafa látið lífið og milljónir lagt á flótta.

mbl.is