„Ég hræddist hann aldrei“

Abdul Aziz, 48 ára flóttamaður frá Afganistan, reyndi í tvígang …
Abdul Aziz, 48 ára flóttamaður frá Afganistan, reyndi í tvígang að stöðva hryðjuverkamanninn í Linwood-moskunni á föstudag, meðal annars með því að grýta í hann posa. AFP

Fjölmörg fórnarlömb og þeir sem lifðu af hryðjuverkaárásina í Christchurch á föstudag sýndu mikla hetjudáð þegar árásarmaðurinn framdi voðaverkin í moskunum tveimur í borginni með þeim afleiðingum að 50 manns létu lífið.

Grýtti posa í árásarmanninn

Þeirra á meðal er Abdul Aziz, 48 ára, sem kom til Nýja-Sjálands frá Kabúl í Afganistan fyrir nokkrum árum. Hann var að biðja í Linwood-moskunni þegar hann heyrði öskur þess efnis að verið væri að skjóta á fólk í moskunni. Þegar hann áttaði sig á því hvað var í gangi réðst hann að Brenton Tarrant, sem var þungvopnaður, og greip með sér posa sem hann grýtti í Tarrant þegar hann fór aftur í bíl sinn til að ná í fleiri skotvopn. Aziz leitaði skjóls bak við bíl þegar Tarrant hóf skothríðina að nýju.

Fjögur börn Aziz voru með honum í moskunni og hann vildi gera hvað sem gat til að vernda þau sem og allt fólkið sem var í moskunni. Hann fann byssu á jörðinni sem Tarrant hafði misst, miðaði að honum og tók í gikkinn, en engin skot voru eftir í byssunni. Hann ákvað þá að elta Tarrant aftur inn í moskuna og mæta honum á ný.

„Þegar hann sá mig með byssuna sleppti hann sinni byssu og hljóp í átt að bílnum sínum. Ég elti hann,“ segir Aziz í samtali við Reuters-fréttastofuna. „Hann sat í bílstjórasætinu og ég henti byssunni í gegnum rúðuna eins og ör. Hann blótaði mér bara og keyrði í burtu. Ég hræddist hann aldrei.“ 

Bænapresturinn í moskunni segir í samtali við AP-fréttastofuna að Aziz hafi sýnt mikið hugrekki og að það sé honum að þakka að fleiri hafi ekki látið lífið í árásinni.

Íbúi í Christchurch þakkar Aziz fyrir hetjudáðina.
Íbúi í Christchurch þakkar Aziz fyrir hetjudáðina. AFP

Kom í veg fyrir fleiri dauðsföll með því að tækla Tarrant

Tveir lögreglumenn gegndu einnig stóru hlutverki í að stöðva árásina en þeir voru á gangi í nágrenninu þegar árásin átti sér stað. Þeir eltu hann uppi, stöðvuðu bíl hans og handtóku Tarrant. Atvikið náðist á myndskeið og hefur verið dreift á samfélagsmiðlum.

„Lögreglumennirnir settu Nýja-Sjáland í fyrsta sæti,“ segir Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.

Tarrant lét fyrst til skarar skríða í Al Noor-moskunni, í um fimm kílómetra fjarlægð frá Linwood-moskunni. Tarrant sýndi frá voðaverkunum í beinni útsendingu á Facebook og þar mátti sjá Naeem Rashid, fimmtugan karlmann frá Pakistan, reyna að stöðva Tarrant með því að tækla hann. Rahid varð fyrir skoti og lést síðar af sárum sínum.

Rizwan Rashid, bróðir Naeem Rashid, sem lét lífið í árásinni …
Rizwan Rashid, bróðir Naeem Rashid, sem lét lífið í árásinni með mynd af fjölskyldu Rashid. AFP

„Það eru nokkur vitni sem segja að hann hafi bjargað nokkrum lífum þegar hann reyndi að stöðva hann,“ segir bróðir Rashid. 21 árs gamall sonur Rashid lét einnig lífið í árásinni. Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan, segir í færslu á Twitter að aðdáunarverð framganga Rashid muni aldrei gleymast og að minning hans muni lifa um ókomna tíð.



Íbúar í Christchurch minn­ast fórn­ar­lamba hryðju­verka­árás­ar­inn­ar. Lög­regl­an á Nýja-Sjálandi hef­ur …
Íbúar í Christchurch minn­ast fórn­ar­lamba hryðju­verka­árás­ar­inn­ar. Lög­regl­an á Nýja-Sjálandi hef­ur staðfest að fimm­tíu manns lét­ust í árás­un­um tveim­ur á föstu­dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert