Vilja Barr í vitnaleiðslu hjá þingi

William Barr.
William Barr. AFP

Þingmenn bandaríska Demókrataflokksins búa sig nú undir að krefjast þess að skýrsla Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI, verði gerð opinber.

Þingmenn fengu í gær afhentan fjögurra blaðsíðna útdrátt úr skýrslunni, þar sem dómsmálaráðherrann William P. Barr, greinir frá því að Mueller hafi komist að þeirri niðurstöðu að fram­boð Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta hafi ekki átt í óeðli­leg­um eða ólög­mæt­um sam­skipt­um við rúss­nesk stjórn­völd í aðdrag­anda banda­rísku for­seta­kosn­ing­anna 2016.

Samsett mynd sem sýnir þá Donald Trump, William Barr og ...
Samsett mynd sem sýnir þá Donald Trump, William Barr og Robert Mueller. AFP

Segir CNN þingmenn þegar vera farna að setja spurningarmerki við þá ákvörðun Barr að ákæra ekki fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Hefur fréttastofan eftir Jerry Nadler, formanni dómsmálanefndar fulltrúadeildar þingsins, að dómsmálaráðherrann verði kallaður fyrir nefndina á næstunni og látinn svara spurningum um málið.

„Í ljósi áhyggjuefnis varðandi misræmi og lokaákvörðun dómsmálaráðuneytis varðandi skýrslu sérstaks saksóknara, þar sem Mueller ber ekki sakir af forsetanum, munum við boða Barr dómsmálráðherra til vitnaleiðslu,“ sagði Nadler á Twitter í gær.

Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa hins vegar margir tekið undir með Trump, sem hefur sagt niðurstöðu skýrslu Muellers hreinsa sig af öllum áburði, varðandi  gagnrýni á demókrata vegna samráðsfullyrðinganna.

„Árum saman hafa hátt settir demókratar í leiðtogahlutverki á þinginu haldið því fram að skýrsla sérstaks saksóknara myndi veita óyggjandi sönnun fyrir samráði. Fréttir dagsins í dag hafa hins vegar sannað að það er helber lygi,“ sagði repúblikaninn og fulltrúadeildarþingmaðurinn Steve Scalise.

Segir CNN að telja megi öruggt að málið eigi eftir að teygja sig inn kosningabaráttuna fyrir forsetakosningarnar 2020.

Fjögurra síðna útdráttur Barr, sem birtur var í dag, er um margt skrifaður á lagamáli, ekki hvað síst þegar kemur að þeirri ákvörðun að ákæra ekki fyrir hindrun á framgangi réttvísinnar. Segir CNN að útdrátturinn, ásamt fyrri yfirlýsingum Barr um að hann væri mótfallinn slíkri rannsókn á forsetanum, sé ein af ástæðum þess að demókratar krefjast þess nú að skýrsla Muellers verði gerð opinber í heild sinni.

„Í ljósi þess að Barr hefur opinberlega lýst sig mótfallinn rannsókn sérstaks saksóknara er hann ekki hlutlaus áhorfandi, né í stöðu til að taka hlutlausar ákvarðanir varðandi skýrsluna,“ sögðu þau Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, og Chuck Schumer, leiðtogi minnihlutans, í sameiginlegri yfirlýsingu sem þau sendu frá sér.

CNN segir þingmenn repúblikana einnig í hópi þeirra sem vilja fá skýrslu Muellers birta og hafa nokkrir sagt að gera þurfi slíkt svo að demókratar geti ekki haldið því fram að dómsmálaráðuneytið haldi einhverjum upplýsingum leyndum.

Miklar upplýsingar sé enda að finna í skýrslunni, viðtöl við vitni, þúsundir dómskjala og svo niðurstöður Muellers, teymis hans og dómsmálaráðherrans. Segir CNN þessi gögn mögulega verða gerð opinber fljótlega og með þeim skýrist myndin af þeirri niðurstöðu sem Mueller komst að með skýrslu sinni.

Sjálfur sagði Barr þingheimi í gær að hann væri að vinna með Mueller að því að gera skýrsluna aðgengilega svo fljótt og auðið væri. Hluti af þeirri vinnu felur að sögn ráðherrans í sér að fjarlægja úr skýrslunni upplýsingar sem leynd hvílir yfir, m.a. vegna rannsókna sem enn eru í gangi.

mbl.is
Bensínhjólbörur
Eigum til bensínhjólbörur með 7.5hp Briggs & Stratton, Drif á öllum, 4 gírar á...
Vetur í Tungunum, Eyjasól ehf.
Nú er að skella sér í sumarbústað um helgina og eða næstu... Rúm fyrir 5-6. Tak...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...