Ljós slökkt á þekktum byggingum

Jarðarstundin á að vekja fólk til umhugsunar um orkunotkun og …
Jarðarstundin á að vekja fólk til umhugsunar um orkunotkun og hættu sem steðjar að vistkerfum heimsins. Af vef WWF

Ljós verða slökkt í mörgum þekktustu byggingum heims á morgun til að vekja fólk til meðvitundar um orkunotkun og ógnir er steðja að líffræðilegum fjölbreytileika á jörðinni.

Þetta er í þrettánda sinn sem svokölluð Jarðarstund (e. Earth Hour) er haldin að undirlagi náttúruverndarsamtakanna World Wildlife Fund, WWF. Í ár verða 24 kennileiti myrkvuð í klukkutíma í senn. „Við erum fyrsta kynslóð mannkyns sem veit að hún er að eyðileggja jörðina. Og við gætum verið sú síðasta sem getur eitthvað gert í málinu,“ segir í yfirlýsingu WWF. „Við höfum lausnina, við þurfum bara að láta raddir okkar heyrast.“

Fjölmörg fyrirtæki um heim allan segjast ætla að taka þátt í vitundarvakningunni á morgun og slökkva ljósin í byggingum sínum.

WWF gaf út rannsóknarskýrslu í október þar sem fram kom að um 60% allra dýra sem hafa hryggjarstykki, þ.e. fiskar, fuglar, froskdýr, skriðdýr og spendýr, hafa þurrkast út af mannavöldum frá árinu 1970. 

Eiffel-turninn í París, Empire State-byggingin í New York, akrópólis, háborg Aþenu og óperuhúsið í Sydney eru meðal kennileita sem verða myrkvuð á morgun.

Í fyrra tóku yfir 7.000 bæir og borgir í 187 löndum þátt í vitundarvakningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert