Mögulega enn á lífi

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, vildi ekki svara spurningum um hvarf …
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, vildi ekki svara spurningum um hvarf hjúkrunarfræðingsins á blaðamannafundi í dag. AFP

Talið er að nýsjálenskur hjúkrunarfræðingur, sem rænt var af vígamönnum Ríkis íslams í Sýrlandi árið 2013, sé mögulega enn á lífi, að því er alþjóðanefnd Rauða krossins segir. 

Louisu Akavi var rænt ásamt tveimur sýrlenskum bílstjórum, Alaa Rajab og Nabil Bakdounes, er þau voru á ferð í bílalest Rauða krossins með neyðarbirgðir til Idlib-héraðs. Vopnaðir menn stöðvuðu bíl þeirra 13. október árið 2013 og rændu sjö manns. Fjórum var sleppt daginn eftir. Rauði krossinn telur að Ríki íslams hafi staðið að baki mannráninu.

Í yfirlýsingu frá Rauða krossinum segir að samkvæmt nýjustu heimildum hafi Louisa verið á lífi í lok síðasta árs. Engar upplýsingar hafi hins vegar verið að finna um örlög bílstjóranna tveggja. 

Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi segjast ekki sammála þeirri ákvörðun Rauða krossins að gera þessar upplýsingar um hjúkrunarfræðinginn opinberar en hafa staðfest að leitarflokkur hafi verið sendur til Sýrlands til að leita að Akavi. Í þeim flokki eru m.a. sérsveitarmenn. Segja yfirvöld að leitað hafi verið að henni annað slagið síðustu ár með það að markmiði að frelsa hana. Enn sé slík vinna í gangi.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum er Rauði krossinn birti yfirlýsingu sína. Hún neitaði að svara frekari spurningum um málið á vikulegum blaðamannafundi sínum í dag. „Það er enn okkar skoðun að það væri betra að halda upplýsingum um þetta mál frá fjölmiðlum.“

Upplýsingum um hvað gerðist var haldið frá fjölmiðlum og þeir fjölmiðlar á Nýja-Sjálandi sem höfðu upplýsingar um hvarf hennar féllust á að birta þær ekki af ótta við að slíkt myndi stefna lífi hennar í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert