Flær hertóku lögreglustöð

AFP

Loka þurfti og rýma lögreglustöð í París dag vegna innrásar flóa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökum lögreglumanna í Frakklandi.

„Lögreglustöðin verður lokuð um óákveðinn tíma,“ stendur á skilti á hurð lögreglustöðvarinnar í 19. hverfi borgarinnar.

Í Twitter-færslu stéttarfélags lögreglumanna kemur fram að vinnuaðstæður hafi verið óbærilegar vegna blóðsjúgandi skordýraplágu.

Þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir til þess að losna við meindýrin undanfarnar þrjár vikur hefur ekki tekist að eyða þeim. Því hafi lögreglumenn ekki getað unnið fyrir kláða og þeir nánast étnir lifandi af flónum. Ekki bætti úr skák að einhverjir þeirra báru óværuna heim til sín þannig að hoppandi og skoppandi flær vöktu litla gleði heima við.

Frétt France Bleau

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert