Minnst 16 látnir á Gaza-ströndinni

Átök fara harðnandi á Gaza-ströndinni.
Átök fara harðnandi á Gaza-ströndinni. AFP

Yfirvöld á Gaza hafa tilkynnt að minnsta kosti 16 dauðsföll vegna árása Ísraelsmanna sem hófust á laugardag með eldflaugaárás frá Gaza-ströndinni. Átökin hafa harðnað á Gaza-ströndinni og eru sögð ein þau hörðustu í áraraðir. 

Palestínski herinn segir að hermenn hafi skotið um 600 eldflaugum á ísraelskt yfirráðasvæði um helgina og þar hafi fjórir látið lífið. Ísraelsmenn segjast hafa skotið á 260 skotmörk á Gaza-ströndinni og hafa hótað frekari árásum.

Þá hafa þrír Palestínumenn, þar á meðal eitt barn, látist í árásum Ísraela á norðurhluta Gaza-strandarinnar í dag, að sögn heilbrigðisráðuneytisins í Palestínu.

Ráðuneytið sagði í tilkynningu að þrír hefðu látist og átta særst þegar „landnámsher Ísraelsmanna gerði árás á norðurhluta Gaza-strandarinnar“ en ísraelski herinn sagðist ekki munu tjá sig um tilkynninguna.

Þá lést fjórða fórnarlamb árásanna í Ísrael á sunnudag vegna eldflaugaskota frá Gaza-ströndinni að sögn ísraelsku lögreglunnar og fjölmiðla þar í landi og lýstu því að átökunum virtist ekki vera að linna.

Talsmaður ísraelsku lögreglunnar, Micky Rosenfeld, gaf ekki nánari upplýsingar um fórnarlambið og gaf ekki upp þjóðerni þess. Ísraelskir fjölmiðlar tilkynntu að einn hafi látist af sárum sínum vegna eldflaugaárása í ísraelsku borginni Ashdod. 

Frétt AFP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert